Dósavín

Á síðasta Vínklúbbsfundi fengu klúbbmeðlimir að blindsmakka Pinot Noir frá Underwood í Oregon. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi fyrir utan að vínið er selt í dósum (reyndar 375 ml sem mótsvarar hálfri flösku). Meðlimir Vínklúbbsins höfðu ekki smakkað dósavín áður og þetta kom þeim skemmtilega á óvart.

Dósavín hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum, einkum í Bandaríkjunum, þar sem úrvalið eykst stöðugt. Þessi vín eru almennt ekki ætluð til langrar geymslu, en ég veit svo sem ekki hversu lengi vín endast í dósum.

Nýlega sá ég að í hillum vínbúðanna var hægt að kaupa dósavín frá Underwood og ég stóðst því ekki freistinguna að prófa. Það var því tilvalið tækifæri þegar ég var gestgjafi á síðasta Vínklúbbsfundi. Klúbbmeðlimir fengu þar að prófa Pinot Noir sem ég hafði umhellt rúmri klukkustund áður en það var drukkið. Vínið fékk 88-90 stig, vakti almenna ánægju og þótti tilvalið að taka með í útileguna. Gagnrýnandi Wine Enthusiast var á svipaðri skoðun því hann gaf víninu 90 stig og setti vínið í 64. sæti á topp 100-listanum yfir bestu kaup ársins 2020.

Í lok fundarins opnaði ég líka Underwood The Bubbles, sem er freyðivín í dós. Það er gert úr Pinot Gris (40%), Pinot Noir (32%) og Chardonnay (28%). Það féll ekki alveg í kramið hjá meðlimum Vínklúbbsins, þótti dálítið súrt og fékk enga formlega einkunn. Eflaust hefur það líka liðið fyrir að vera smakkað á eftir kröftugum rauðvínum á borð við Orin Swift Machete. Mér fannst vínið ekki freyða mikið en veit svo sem ekki hversu mikill þrýstingur var í dósinni. Við lauslega athugun sýnist mér að áldósir þoli þrýsting sem nemi rúmum 3 loftþyngdum. Til samanburðar má nefna að í kampavínsflöskum er þrýstingurinn oft um 5-6 loftþyngdir og í Prosecco er þrýstingurinn um 3,5 loftþyngdir.

Vín dagsins

Til að halda áfram með yfirferðina á dósavínunum ákvað ég að prófa líka Pinot Gris frá Underwood. Þrúgurnar koma af vínekrum í Willamette Valley og Applegate Valley í Oregon og gerjunin fer fram í stáltönkum.

Underwood Pinot Gris er fölgult á lit, með angan af steinefnum, greipaldin, melónum, perum og gúrku. Í munni er rúmlega miðlungssýra og ágætur ávöxtur. Epli, perur og greipaldin í þokkalegu eftirbragðinu. Góð kaup (1.498 kr fyrir 375 ml dós). Gott útileguvín.

Gagnrýnandi Wine Enthusisast gefur þessu víni 90 stig. Notendur Vivino eru ekki alveg jafn hrifnir og gefa því 3,4 stjörnur.

Í vínbúðunum er einnig hægt að nálgast rósavín frá Underwood en ég ætla aðeins að sjá til með hvort ég prófi það líka…

Dósavín
Góð kaup
Dósavínin frá Underwood komu skemmtilega á óvart og það er alveg óhætt að mæla með þeim.
3.5
87 stig

Vinir á Facebook