Marques de Murrieta Capellania Reserva 2016

Rioja-hérað er töluvert þekktara fyrir rauðvín en fyrir hvítvín, svo ekki sé meira sagt. Vínekrur þar sem hvítar þrúgur er ræktaðar eru aðeins um einn tíundi hluti þess sem lagt er undir rauðar þrúgur. Af hvítum þrúgum Rioja ber Viura höfuð og herðar yfir aðrar þrúgur. Alls eru hvítar þrúgur ræktaðar á um 6.000 hektörum í Rioja – þar af er Viura á um 4.200 hektörum. Klassískt Rioja-hvítvín liggur á eikartunnnum í 2-5 ár, svipað og rauðvínin þurfa að gera. Hins vegar hefur þessi klassíski Rioja-stíll átt undir högg að sækja hjá neytendum, sem kjósa síður mikið eikuð hvítvín í dag og vilja heldur frísklegri og ávaxtaríkari hvítvín. Þess vegna hefur hlutur Reserva og Gran Reserva hvítvína sífellt minnkað undanfarin ár. Það eru þó enn margir eldri framleiðendur sem halda tryggð við gamla stílinn. Má þar nefna López de Herdia (Vina Tondonia og Vina Bosconia) og Marques de Murrieta.

Í Rioja hefur, auk Viura (sem einnig kallast Macabeo), verið heimilt að nota þrúgurnar Malvasiaog Garnacha blanca í hvítvín. Árið 2007 varð einnig heimilt að nota þrúgurnar Maturana blanca, Tempranillo blanco, Torrontés, Chardonnay, Verdejo og Sauvignon blanc. Þessar nýju þrúgur mega þó ekki vera meira en helmingur lokablöndunnar.

Vín dagsins

Vín dagsins er hreint Viura sem er gert á gamla mátann og látið liggja í 16 mánuði á nýjum frönskum eikartunnum. Eftir það var vínið geymt í steinsteyputönkum fram að átöppun. Alls voru framleiddar 39.614 flöskur og 400 magnum-flöskur af þessu víni.

Marques de Murrieta Capellania Reserva 2016 er fallega strágult á lit með góða dýpt. Í nefinu finnur maður epli, perur, sítrusávexti og fennel. Í munni er góð sýra og þétt fylling, með steinefnum, sítrónum, greipaldin, möndlum og kryddum í löngu og smjörkenndu eftirbragðinu. 95 stig. Frábær kaup (4.700 kr) en því miður ekki lengur til í vínbúðunum. Þetta vín fór mjög vel með foie gras og nýtur sín eflaust vel með fiski, svepparisotto og ostum. Vín sem þolir eflaust allt að 10-15 ára geymslu.

Robert Parker gefur þessu víni 94 stig og það gerir Wine Spectator einnig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (273 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Marques de Murrieta Capellania Reserva 2016
Frábært vín
Marques de Murrieta Capellania Reserva 2016 er frábært vín sem fer vel með fiski, svepparisotto og ostum.
5
95 stig

Vinir á Facebook