P+S Chryseia 2018

Eitt af betri vínunum í vínbúðunum sem er á nokkuð viðráðanlegu verði er hið portúgalska Chryseia. Vínið er afrakstur samstarfs milli Symington og Pratt-fjölskyldanna, sem eru þekktari fyrir púrtvínsgerð.. Fyrsta vínið sem kom úr þessu samstarfi var Chryseia, árgangur 2000. Chryseia var fyrsta portúgalska vínið, sem ekki er styrkt vín, til að komast á topp 100-lista Wine Spectator, og 2011-árgangurinn lenti í 3. sæti árið 2014. Ekkert annað Douro-vín hefur komist jafn hátt á listanum. Þrúgurnar koma frá vínekrum Quinte do Roriz, og Chryseia er blandað úr Touriga Nacional og Touriga Franca. Hlutfallið er nokkuð breytilegt milli ára og sá árgangur sem hér er fjallað um inniheldur 55% Touriga Nacional og 45% Touriga Franca.

Chryseia 2018 er dökk-rúbínrautt á lit, með þéttan ilm af vanillu, plómum, súkkulaði, leðri, sólberjum, fjólum og svörum pipar. Í munni eru ríflega miðlungstannín, góð sýra og þétt fylling. Í munni finnur maður súkkulaði, vanillu, leður, eik, sólber og pipar í löngu og þéttu eftirbragðinu. 95 stig. Frábært vín og mjög góð kaup (7,599 kr). Njótið með góðri steik, t.d. nauti eða villibráð.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,6 stjörnur (848 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker fjallaði ekki um þennan árgang en 2017 og 2019 fengu báðir 95 stig! Wine Spectator gefur þessu víni 93 stig og Wine Enthusiast gefur því 96 stig.

P+S Chryseia 2018
Frábær kaup!
Chryseia 2018 er frábært vín sem steinliggur með stórum steikum - nauti eða villibráð (hreindýr, dádýr, gæs).
5
95 stig

Vinir á Facebook