Contino Reserva 2017

Vínin frá CVNE eru okkur Íslendingum vel kunn enda fengist í vínbúðunum um árabil. CVNE stendur fyrir Compañía Vinícola del Norte de España og er í raun regnhlífarheiti yfir sjö vínhús sem öll eru í eigu sömu fjölskyldunnar. Þekktust hér á landi eru líklega þau vín sem eru seld undir merkjum CUNE, en vín frá 3 öðrum vínhúsum eru einnig fáanleg í vínbúðunum. Eitt þeirra er frá Viñedos del Contino.

Viñedos del Contino var stofnað árið 1973 og ræður yfir 62 hektörum af vínekrum. Víngerð þarna á sér langa sögu og hellarnir á landareign Contino eru frá 16. öld og með þeim elstu í Rioja. Þrúgur hverrar vínekru eru gerjaðar og unnar hver fyrir sig og lokablöndun gerð að því loknu. Alls eru 7 vín framleidd undir merkjum Contino – 5 rauð, 1 hvítt og 1 rósavín.

Contino Reserva 2017 er blanda Tempranillo (85%), Graciano (10%) og Mazuela (5%). Gerjun átti sér stað í stórum stáltönkum og að því loknu var vínið látið liggja í 2 ár á tunnum úr amerískri (40%) og franskri (60%) eik. Ársframleiðslan er að jafnaði um 290-300.000 flöskur og 2017-árgangurinn var framleiddur í 281.389 750 ml flöskum og 3.000 magnumflöskum. Vínið er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt. Í nefinu finnur maður vanillu, leður, tóbak, svartan pipar og anís. Ríflega miðlungstannín, góð sýra, flottur ávöxtur og góð fylling. Í munni er vanilla, kirsuber og tóbak í þéttu og löngu eftirbragðinu. Vínið er í mjög góðu jafnvægi og á mörg góð ár eftir. 94 stig. Frábær kaup (4.779 kr). Vín fyrir flottar steikur – naut, lamb og villibráð, en nýtur sín líka vel með tapasréttum og góðum pylsum.

Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur þessu víni 5 stjörnur. James Suckling gefur víninu 95 stig og Tim Atkin gefur 94 stig. Wine Spectator gefur því 90 stig og notendur Vivino gefa því 4,2 stjörnur (244 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þessi árgangur hefur ekki fengið umsögn hjá Robert Parker, en síðustu árgangar hafa að jafnaði fengið um 93-95 stig.

Contino Reseva 2017 er vín ársins 2022 á Vínsíðunni.

Contino Reserva 2017
Frábær kaup
Contino Reserva 2017 er vín fyrir flottar steikur - naut, lamb og villibráð, en nýtur sín líka vel með tapasréttum og góðum pylsum. Vín ársins 2022 á Vínsíðunni.
5
94 stig

Vinir á Facebook