Nicolas Catena Zapata 2015

Vínhús Catena Zapata er líklega þekktasta vínhúsið í Argentínu. Það er a.m.k. það vínhús í Argentínu sem hefur lengst verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Íslendingum eru vel kunn Malbec-vínin frá Zapata og þau hafa lengi verið fáanleg í hillum vínbúðanna. Höfuð fjölskyldunnar, Nicolas Catena Zapata, hefur hlotið margvísleg heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til Argentískrar víngerðar.

Eitt af flaggskipum Catena er vínið sem nefnt er eftir Nicolas Catena Zapata. Vínið er gert í Bordeaux-stíl eins og þau voru fyrir tíma Phylloxera rótarlúsarinnar sem lagði evrópska vínrækt í rúst á seinni hluta 19. aldar Vínviðurinn vex á eigin rótum, en ekki á ágræddum rótum líkt og gildir um nánast hvern einasta vínvið í Evrópu. Þá er Malbec notað í stað Merlot, alveg eins og gert var í Bordeaux fyrir tíma Phylloxera.

Vín dagsins

Vínið Nicolas Catena Zapata leit fyrst dagsins ljós árið 1997. Það hlaut strax einróma lof gagnrýnenda og var lýst sem fyrsta stóra „Bordeaux Cru“ víninu frá Suður-Ameríku. Vínið hefur nær alltaf fengið um 93-98 stig hjá Robert Parker og um 92-95 stig hjá Wine Spectator.

Nicolas Catena Zapata 2015 er gert úr þrúgunum Cabernet Sauvignon (83%) og Malbec (17%). Vínið er látið gerjast í 225-500 lítra tunnum úr franskri eik, og að lokinni gerjun er það látið liggja í 18 mánuði til viðbótar á frönskum eikartunnum. Alls voru framleiddar 72.000 flöskur af þessum árgangi. Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit og góða dýpt. Í nefinu er þéttur en jafnfram mjúkur ilmur af sólberjum, vanillu, súkkulaði, plómum, tóbaki og fjólum. Í munni eru ríflega miðlungstannín, miðlungs sýra og flottur ávöxtur. Sólber, súkkulaði, leður, tóbak og eik í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér lengi. 95 stig. Góð kaup en tekur samt dálítið í veskið (16.989 kr.). Steinlá með hreindýralundum á gamlárskvöld!

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,5 stjörnur (1.872 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 93 stig

Nicolas Catena Zapata 2015
Frábært vín!
Nicolas Catena Zapata 2015 er frábært vín sem steinlá með hreindýralundum á gamlárskvöld!
5
95 stig

Vinir á Facebook