Chateau de La Ragotiere Les Vieilles Vignes Muscadet de Sèvre et Maine sur lie 2020

Ég tók mig til og settist á skólabekk í haust, nánar tiltekið skráði ég mig í WSET-3 námið. WSET stendur fyrir Wine & Spirit Education Trust og þetta er sem sagt 3. stigið af 4. Námið tekur um 4 mánuði þar sem kennt er einu sinni í viku og þess á milli þarf maður að vera duglegur að lesa og horfa á kennslumyndbönd. Í náminu þarf ég líka að smakka um 60 mismunandi vín, þar sem lögð er áhersla á að læra að lýsa vínunum skv. lýsingaraðferð WSET. Vínin eru líka valin þannig að þau endurspegli sjálft námið – þrúgurnar, löndin, héruðin og víngerðaraðferðirnar.

Það getur verið snúið að útvega öll þau vín sem þarf af smakka á námskeiðinu. Sumt á ég til, sumt á veðurfræðingurinn sem er í þessu námi með mér og sumt fæst í vínbúðnum. Sum vínin eru þó ófáanleg í vínbúðunum og þá höfum verið svo heppnir að hafa fengið aðstoð frá vínbirgjum sem eiga sambærileg vín þó svo að þau séu ekki til sölu í vínbúðunum. Sum vínin höfum við svo þurft að panta sérstaklega að utan.

Fyrsta vínið sem við smökkuðum í þessu námi var ekki hægt að nálgast í vínbúðunum, en Vínnes átti sambærilegt vín og gaf okkur til að smakka. Fyrir það kunnum við Vínnesi kærar þakkir.

Vín dagsins

Umrætt vín kemur frá Loire-dalnum, nánar tiltekið frá svæði sem kallast Muscadet Sèvre et Maine. Þetta svæði er suðaustur af borginni Nantes og undir það heyra um 20 þorp. Vínekrurnar eru staðsettar meðfram tveimur ám sem renna um svæðið og nafn héraðsins er fengið af þessum ám – Sèvre Nantaise og Maine.

Vínið er gert úr þrúgunni Melon de Bourgogne. Líkt og nafnið gefur til kynna er þrúgan ættuð úr Búrgúndar-héraði, þar sem hún var ræktuð allt þar til fyrirmæli voru gefin um að þrúgunni skyldi útrýmt úr Búrgúndí snemma á 18. öld. Árið 1709 gerði mikið frost vesturhluta Loire-dalsins sem drap stóran hluta vínviðarins. Vínbændur hófu þá að rækta Melon, sem þolir frostið betur. Síðan þá hefur þrúgan verið ræktuð í Loire og notuð í létt hvítvín sem kallast Muscadet. Gætið þess þó að rugla þessum vínum ekki saman við önnur hvítvín sem eru gerð úr þrúgunni Muscadet.

Eins og nafnið gefur til kynna þá koma þrúgurnar af gömlum vínvið (Vieilles Vignes), en í þessu tilviki er vínviðurinn um 50-60 ára gamall.

Mörg vín í Muscadet Sèvre-et-Maine eru látin liggja „sur lie“ í nokkrar vikur eða mánuði. Sur lie þýðir „á botnfallinu“, en í botnfallinu eru dauðir gersveppir sem gefa víninu þéttara og um leið mýkra bragð. Vínin eru tilbúin til neyslu þegar þau koma á markað en þola vel geymslu í 5-7 ár.

Chateau de La Ragotiere Les Vieilles Vignes Muscadet de Sèvre et Maine sur lie 2020 er eins og áður segir gert úr Melon de Bourgogne. Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í 10 mánuði „sur lie“ – á botnfallinu, sem síðan er síað frá fyrir átöppun. Vínið er fölgult á lit, unglegt. Í nefinu eru perur, epli, sítrónur, greipaldin, ylliblóm, gras og steinefni. Í munni er vínið þurrt, með mikla sýru, miðlungs alkóhól, létta fyllingu og gott jafnvægi. Í léttu en frekar stuttu eftirbragðinu eru perur, epli, sítrónur, ylliblóm, gras og steinefni. Ágætt vín sem stendur undir væntingum. Drekkist núna (ekki ætlað til langrar geymslu). Vínið fer vel með skelfiski, humri, fiskréttum hvers konar, austurlenskum mat og geitaosti.

Chateau de La Ragotiere Les Vieilles Vignes Muscadet de Sèvre et Maine sur lie 2020
Chateau de La Ragotiere Les Vieilles Vignes Muscadet de Sèvre et Maine sur lie 2020 steinliggur með skelfiski, fiskréttum og austurlenskum mat
4
88 stig

Vinir á Facebook