Alexander vs The Ham Factory Ribera del Duero 2014

Áfram heldur námið á WSET-3 námskeiðinu og ég held að þetta sé eitt skemmtilegasta námskeið sem ég hef sótt í seinni tíð! Gamli heimurinn er öllu fyrirferðarmeiri en sá nýji og yfirferð yfir gamla heiminn hefur tekið drjúgan tíma. Áherslan er reyndar mest á Frakkland, en hin klassísku löndin fá líka sitt pláss. Því miður er smakkhlutinn ekki svo ítarlegur að við náum að smakka vín frá öllum helstu héruðunum, en lykilhéruðin eiga þó öll sinn fulltrúa í smakkinu.

Þegar farið var yfir Spán var mesta áherslan á þau héruð sem eru efst í gæðaþrepum Spánar – Rioja og Priorat. Þó svo að Ribera del Duero eigi sér langa vínsögu þá er það aðeins á síðustu áratugum að frægðarsól Ribera hafi farið að rísa. Líklega á Vega Sicilia mestan þátt í því að koma Ribera del Duero á kortið. Það var ekki fyrr en árið 1982 að Ribera del Duero fékk s.k. DO-skilgreiningu skv. spænskum vínlögum. Í efsta þrepinu, DOCa, eru aðeins Rioja og Priorat en eflaust munu héruð á borð við Ribera del Duero, Toro og Rias Baixas færast upp í það þrep þegar fram líða stundir.

Í vínbúðunum fást nú um 40 rauðvín frá Ribera del Duero, auk þess sem hægt er að sérpanta 13 vín til viðbótar. Aðeins eitt hvítvín frá Ribera del Duero hægt að nálgast í vínbúðunum (þarf reyndar að sérpanta). Það kemur ekki á óvart enda lítið um hvítvínsgerð í héraðinu.

Vín dagsins

Vínhús Casa Rojo er ungt að árum – stofnað árið 2009 – en hefur engu að síður náð ágætum árangri. Vínhúsið er staðsett í Murcia og á þar vínekrur, en einnig eru keyptar þrúgur frá öðrum héruðuðum, m.a. Ribera del Duero. Vínið sem hér er fjallað um kemur frá vínekrum við þorpin La Horra og Hontoria de Valdearados. Líkt og aðrar vínekrur í Ribera del Duero eru þær nokkuð hátt yfir sjávarmáli (í um 850-900 metra hæð). Það er einmitt þessi mikla hæð sem gerir vínrækt mögulega í Ribera del Duero, því þannig temprast hitinn. Á sumrin getur hitinn farið vel yfir 40°C sem er ekki gott fyrir þrúgurnar sem myndu ofþroskast og missa mikilvæga sýru ef ekki kæmi til einhver kæling (næturnar eru mun kaldari þegar svo hátt er komið).

Alexander vs The Ham Factory Ribera del Duero 2014 er gert úr 100% Tinto Fino (Tempranillo) og hefur fengið að liggja í 20 mánuði á frönskum eikartunnum djúprautt á lit, með kröftugri angan af svörtum, sultuðum kirsuberjum, sólberjum, plómu, lakkrís, eucalyptus (tröllatré), mintu og svörtum pipar. Í munni er vínið þurrt með ríflega sýru, góð tannín og nokkuð hátt alkóhóll (15,5%). Eftirbragðið er miðlungslangt, með kröftugum kirsuberjum, sólberjum, lakkrís, vanillu, tóbaki, sedrusvið, leðri og svörtum pipar. 91 stig. Mjög gott vín sem fer vel með góðri steik – lamb, naut eða villibráð.

Þetta vín hefur aðeins 37 umsagnir á Vivino en notendur gefa því 4,0 stjörnur.

Ölgerðin gaf okkur þetta vín til smökkunar á námskeiðinu og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.

Alexander vs The Ham Factory Ribera del Duero 2014
Alexander vs The Ham Factory Ribera del Duero 2014 er mjög gott vín sem fer vel með góðri steik - lamb, naut eða villibráð.
4.5
91 stig

Vinir á Facebook