Wynn’s Coonawarra Shiraz 2019

Vínhús Wynn’s í Coonawarra í Ástralíu á sérstakan stað í hjörtum meðlima vínklúbbsins míns. Michael Shiraz frá Wynn’s er á meðal uppáhaldsvína flestra meðlima klúbbsins. Ritari klúbbsins fór til Ástralíu fyrir nokkrum árum og heimsótti Wynn’s. Þar var ákaflega vel tekið á móti honum. Hann hitti þar Sue Hodder, sem er aðal víngerðarkona Wynn’s og tókst með þeim vinskapur. Sue kom svo í heimsókn til Íslands í september 2014 á einn merkasta fund í sögu vínklúbbsins.

Sue hafði látið senda á undan sér kassa með öllum helstu vínum Wynns og á fundinum smökkuðum við þessi vín undir leiðsögn Sue, sem fræddi okkur einnig um starfsemi Wynns, víngerð og í hverju starf hennar sem winemaker væri fólgið.

Á þessum tæpa áratug sem liðinn er frá heimsókn Sue Hodder hefur lítið farið fyrir vínum frá Wynn’s í Vínbúðunum. Það hefur þó aðeins rofað til og nú fást tvö vín frá Wynn’s í Vínbúðunum – Chardonnay og Shiraz, bæði í Coonawarra Estate-línunni frá Wynn’s.

Vín dagsins

Vín dagsins er Shiraz úr áðurnefndri Coonawarra Estate-línu Wynn’s. Þetta vín hefur í raun verið ein af grunnstoðum Wynn’s allt frá 1952 (það hét þá Wynn’s Hermitage). Þetta er hreint Shiraz, sem að lokinni gerjun var látið þroskast í 13 mánuði í notuðum frönskum eikartunnum.

Wynn’s Coonawarra Estate Shiraz 2019 hefur djúpan rúbínrauðan lit og er unglegt að sjá. Í nefinu er þéttur ilmur af kirsuberjum, plómum, sólberjum, svörtum pipar, apótekaralakkrís, mintu, lavender, rósum og eucalyptus, einnig vanilla, súkkulaði og sviðin eik. Í munni er vínið þurrt, með þétt tannín, ríflega sýru, góða fyllingu og gott jafnvægi. Eftirbragðið þétt með kirsuber, plómur, sólber, pipar, mintu, lavender, vanillu, súkkulaði og eik. 89 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr). Fer vel með grillaðri nautasteik, lambi og léttari villibráð.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 stjörnur (472 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Wynn’s Coonawarra Shiraz 2019
Góð kaup
Wynn’s Coonawarra Estate Shiraz 2019 fer vel með grillaðri nautasteik, lambi og léttari villibráð.
4
89 stig

Vinir á Facebook