CUNE Rioja Rosado 2021

Íslenskir vínunnendur þekkja flestir vínin frá CUNE. Vínhús CUNE rekur sögu sína til ársins 1879, stofnað af bræðrunum Eusebio og Raimundo Real de Asúa. Fullu nafni heitir vínhúsið Compañía Vinícola del Norte del España eða Norður-spænska vínfélagið, skammstafað CVNE. Strax á fyrsta árganginum sem vínhúsið sendi frá sér var stafsetningarvilla á flöskumiðanum þar sem stóð CUNE í stað CVNE. Þar sem vínið fékk mjög góðar viðtökur ákváðu bræðurnir að halda þessari skammstöfun óbreyttri og þess vegna stendur enn CUNE á flöskumiðanum í dag. Vefsíðan þeirra er hins vegar á www.cvne.es og þar er farið ítarlegar yfir sögu vínhússins.

Vínin frá CVNE hafa hlotið fjölda viðurkenninga og árið 2013 var vín þeirra Imperial Gran Reserva 2004 valið vín ársins hjá Wine Spectator. Í vínbúðunum er hægt að fá 6 mismunandi rauðvín frá CUNE-vínfélaginu (þá tel ég með Imperial og Contino), 1 hvítvín, 1 freyðivín og 1 rósavín.

Vín dagsins

Vín dagsins er auðvitað rósavín og þetta vín er gert úr Tempranillo. Safinn fékk að liggja í rúman sólarhring á hýðinu áður en hann var pressaður frá og gerjaður í stáltönkum.

CUNE Rioja Rosado 2021 er föl-laxableikt á lit, með angan af jarðarberjum, hindberjum, trönuberjum, sítrónum, vatnsmelónum, greipaldin og steinefnum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru og þægilegt eftirbragð, þar sem greina má jarðarber, hindber, greipaldin, vatnsmelónur og steinefni, ásamt smá seltu. 88 stig. Góð kaup (2.499 kr). Fer vel með pastaréttum, fuglakjöti, léttari kjötréttum, grænmetisréttum eða sem fordrykkur.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,5 stjörnur (186 umsagnir þegar þetta er skrifað). Fyrri árgangar hafa verið að fá 86-88 stig hjá Robert Parker og 85-90 stig hjá Wine Spectator.

CUNE Rioja Rosado 2021
Góð kaup
CUNE Rioja Rosado 2021 fer vel með pastaréttum, léttari kjötréttum, fuglakjöti, grænmetisréttum eða sem fordrykkur.
4
88 stig

Vinir á Facebook