Mucho Mas Rosado

Vínhús Félix Solís var stofnað árið 1952. Stofnandinn, Félix Solís Fernández, vildi stofna fjölskyldufyrirtæki í víngerð og staðsetti fyrirtækið í Valdepeñas, sem er nánast á miðjum Spáni. Valdepeñas DO er umlukið mun stærra vínsvæði, La Mancha, en Valdepeñas telst vera sérstakt svæði, m.a. vegna langrar og merkar sögu í víngerð. Þarna hafa lengi verið gerð létt rauðvín og rósavín sem nutu vinsælda í stórborgunum Madrid og Valencia. Solís-fjölskyldan hafði áður haslað sér völl í vínkaupmennsku, en nú var sem sagt komið að því að búa til eigin vín.

Solís fékk til sín víngerðarmeistarann Domingo Maroto og hóf að framleiða ódýr en vönduð vín sem ætluð voru fyrir almenning. Vínhúsið stækkaði ört og vínekrunum fjölgaði. Árið 1975 opnaði Felix Solís verksmiðju sem getur afkastað 7500 tonnum af þrúgum á dag og gerjað mótsvarandi 175.000 tonnum. Félix Solís er í dag eitt af stærstu vínhúsum heims og ársframleiðslan mótsvarar um 120 milljónum flaskna. Nýlega opnaði Félix Solís nýjan „vínkjallara“, réttara sagt víntunnugeymslu sem er einn sá fullkomnasti í heimi. Þarna er hægt að geyma allt að 130.000 tunnur við 17°C og 70% rakastig. Húsið er algjörlega sjálfvirkt – vélmenni sjá um að færa til tunnur, koma þeim í hillur, flytja að blöndunar- og átöppunarstöð, og þrífa tunnurnar þegar þær hafa verið tæmdar. Þarna skín alltaf sól, og auðvitað gengur allt fyrir sólarorku. Ég fann þetta myndband um „vínkjallarann“ og fannst tilvalið að setja það hér inn, enda mjög áhugavert.

Vín dagsins

Rósavínsumfjöllunin heldur áfram, og að sinni er um að ræða rósavín sem kallast Mucho Mas. Mucho Mas er eitt af merkjum Félix Solís og í þessari vörulínu er að finna 2 rauðvín, rósavín, hvítvín og freyðivín. Vínið sem hér um ræðir er gert úr þrúgunum Garnacha, Tempranillo og Bobal. Safinn var aðeins látinn liggja í 2-3 tíma á hýðinu áður en hann var pressaður frá og gerjaður við 13-14°C. Vínið var svo látið hvíla í tönkum í rúma 3 mánuði áður en það var blandað og sett á flöskur. Athugið að hér er ekki um árgangsvín að ræða.

Mucho Mas Rosado er jarðarberjarautt á lit, með angan af jarðarberjum, vatnsmelónum, hunangi, hindberjum, nektarínum, límónuberki, rifsberjum og ögn af rjómakaramellum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega sýru og gott jafnvægi. Í munni er þægilegt bragð af jarðarberjum, vatnsmelónum, hindberjum, nektarínum, límónuberki og rifsberjum. 88 stig. Mjög góð kaup (2.299 kr). Ljómandi gott rósavín sem fer vel með léttum sjávarréttum, grænmetisréttum, salati, ljósu fuglakjöti, skinku eða bara eitt og sér.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (774 umsagnir þegar þetta er skrifað), en ég fann engar aðrar umsagnir um þetta vín.

Mucho Mas Rosado
Mjög góð kaup
Mucho Mas Rosado fer vel með léttum sjávarréttum, grænmetisréttum, salati, ljósu fuglakjöti, skinku eða bara eitt og sér.
4
88 stig

Vinir á Facebook