Champagne D’Marc Grande Reserve Brut

Áfram heldur umfjöllunin og nú ætla ég að klára restina af kampavínunum sem ég hef smakkað á þessu ári.

Þetta vín smakkaði ég í Brussel s.l. vor. Hér er á ferðinni vín frá litlum framleiðanda sem ég veit frekar lítið um, annað en að fjölskyldan hefur stundað vínrækt í tæp 400 ár. Fyrstu árin voru einkum gerð rauðvín, en þegar kampavín leit dagsins ljós var áherslum breytt og nú gerir fjölskyldan aðeins kampavín. Alls á fjölskyldan um 4 hektara af vínekrum, þar sem 2/3 vínviðarins er Pinot Meunier, fjórðungur er Chardonnay og restin Pinot Noir, en auk þess er ræktað lítilræði af þrúgunni Arbane sem einnig má nota í kampavín.

Champagne D’ Marc Grande Reserve Brut er gert úr Pinot Meunier (70%), Chardonnay (20%) og Pinot Noir (10%). Vínið er fallega gullið og freyðir fínlega. Í nefinu finnur maður heslihnetur, epli, sítrus og brioche. Í munni eru fínar búbblur, góð sýra og ágætur ávöxtur. Sömu bragðtónar koma fram í eftirbragðinu – heslihnetur, epli, sítrus og brioche. Fer vel með flestum mat – einkum fiski, fuglakjöti, foie gras eða bara eitt og sér.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (69 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Champagne D’Marc Grande Reserve Brut
Góð kaup
D. Marc Champagne Grande Reserve Brut fer vel með flestum mat - einkum fiski, fuglakjöti, foie gras eða bara eitt og sér.
4
90 stig

Vinir á Facebook