Cono Sur Sauvignon Blanc Reserva Especial 2017

Alþjóðlegi Sauvignon Blanc-dagurinn er í dag, 7. Maí. Það voru nýsjálenskir vínbændur sem hófu að halda upp á þennan dag árið 2010. Tilgangurinn var auðvitað að vekja athygli á Sauvignon Blanc frá Nýja-Sjálandi. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur ár frá 2010 og er á samfélagsmiðlum merktur með #SauvBlancDay.

Í tilefni dagsins er því tilvalið að fá sér glas af góðu Sauvignon Blanc – til dæmis af víni dagsins!

Vín dagsins

Þó svo að Sauvignon Blanc-dagurinn sé kominn frá Nýja-Sjálandi þá kemur vín dagsins ekki þaðan, heldur frá Chile. Vínhús Cono Sur er íslenskum vínáhugamönnum vel kunnugt, enda hafa vínin þeirra hlotið almenna hylli íslenskra vínáhugamanna. Hér er á ferðinni hreint Sauvignon Blanc frá Casablanca-dalnum í Chile. Vínið var látið liggja í 6 mánuði í stáltönkum og hefur því aldrei komist í snertingu við eik.

Cono Sur Sauvignon Blanc Reserva Especial 2017 er strágulgrænt á lit, fallegt í glasi með fínlega tauma. Í nefinu eru sólberjalauf, apríkósur, ferskjur og græn epli. Í munni er vínið þurrt, með miðlungsfyllingu og ágæta sýru. Greipaldin, græn epli, mandarínur og ögn af hunangi í ágætu eftirbragðinu. 87 stig. Fer vel með fiskréttum hvers konar, sushi eða bara sem fordrykkur á meðan grillað er í góða veðrinu. Góð kaup (2.690 kr). Tilbúið núna og er ekki ætlað til geymslu.

Robert Parker gefur þessu víni 88 stig og notendur Vivino gefa því 3.6 stjörnur (131 umsögn þegar þetta er skrifað).

Cono Sur Sauvignon Blanc Reserva Especial 2017
Cono Sur Sauvignon Blanc Reserva Especial 2017 fer vel með fiskréttum og sushi eða bara sem fordrykkur á meðan grillað er í góða veðrinu.
4
87 stig

Vinir á Facebook