Baricci Brunello di Montalcino Montosoli 2016

Bestu „klassísku“ Toscana-vínin eru án efa Brunello di Montalcino. Þessi vín koma af þrúgum sem eru ræktaðar á vínekrum í kringum þorpið Montalcino í hjarta Toscana. Nafnið Brunello á uppruna sinn í því að lengst var þrúgan kölluð Brunello. Síðar kom í ljós að þetta væri einfaldlega þrúgan Sangiovese, sem er alls ráðandi í Toscana. Nafnið Brunello hefur hins vegar haldist, enda þekkt vörumerki í sjálfu sér.

Brunello geta verið stórfengleg vín sem eru í hópi þeirra bestu frá Ítalíu. Í Brunello fara einungis Sangiovese þrúgur, og vínin þurfa að liggja minnst 2 ár á eikartunnum áður en þau fara á flöskur í minnst 4 mánuði áður en heimilt er að selja þau.

Vínhús Baricci í Montalcino var stofnað árið 1955. Baricci er lítið fjölskylduvínhús og vínekrurar ná aðeins yfir tæpa 5 hektara. Fyrsta Rosso di Montalcino frá Baricci leit dagsins ljós árið 1968 og á því herrans ári 1971 kom fyrsta Brunello frá Baricci. Vínið fagnar því 50 ára afmæli í ár líkt og ritstjóri Vínsíðunnar!

Vín dagsins

Eins og lög gera ráð fyrir þá er vín dagsins hreint Sangiovese, sem að lokinni gerjun fær að liggja í 3 ár á tunnum úr Slavónskri eik. Ársframleiðslan á þessu víni er ekki nema um 15.000 flöskur.

Baricci Brunello di Montalcino Montosoli 2016 er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroski. Í nefinu eru þroskuð kirsuber, leður, plómur, mild eik og vottur af anís. Í munni eru kröftug tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Kirsuber, kakó, lakkrís, mild eik og smá leður. Magnað vín en aðeins ungt og hefur því gott af umhellingu. 95 stig. Mjög góð kaup (8.260 kr). Steinliggur með góðri steik og ostum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Wine Spectator gefur þessu víni 97 stig og 2015-árgangurinn fær 94 stig. Robert Parker gefur 2015-árgangnum 96 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4.4 stjörnur (aðeins 16 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Baricci Brunello di Montalcino Montosoli 2016
Baricci Brunello di Montalcino Montosoli 2016 er frábært vín sem steinliggur með góðri steik og góðum ostum.
5
95 stig.

Vinir á Facebook