Cono Sur Pinot Noir Reserva Especial 2016

Ég var víst eitthvað að tjá mig um daginn varðandi Pinot Noir og Búrgúndí, en það eru fleiri staðir á jörðinni sem gefa af sér gott Pinot Noir. Þannig eru bæði Marlborough á Nýja-Sjálandi og Oregon-fylki í Bandaríkjunum þekkt fyrir góð Pinot Noir. Þrúgan er einnig ræktuð í fjölmörgum öðrum löndum, s.s. Þýskalandi, Austurríki, Ástralíu, Ítalíu, Spáni og svona mætti lengi telja.

Þrátt fyrir að vera ræktuð í flestum þeim löndum þar sem víngerð er stunduð, þá er Pinot Noir alls ekkert auðveld í ræktun. Vínviðurinn þrífst best á svalari slóðum en hann vill næga sól og ekki of rakt loftslag. Vínberin sitja mjög þétt í klasanum og er hætt við ýmsum vandamálum á borð við myglu. Vínbændur þurfa því að fylgjast vel með vínviðnum og grisja eftir þörfum.

Pinot Noir hefur frekar þunnt hýði og vínin eru því yfirleitt ekki mjög tannísk. Þá er áfengisinnihaldið oft aðeins lægra en í öðrum rauðvínum, a.m.k. í Frakklandi.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Chile, nánar tiltekið frá San Antonio-dalnum. Vínið er látið gerjast í stórum, opnum stáltönkum. Hluti vínsins (80%) fær svo að liggja í 11 mánuði á notuðum tunnum úr franskri eik en afgangurinn var látinn liggja áfram í stáltönkum.

Cono Sur Pinot Noir Reserva Especial 2016 er múrsteinsrautt á lit, með miðlungsdýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður klassískan ilm af hindberjum, jarðarberjasultu og mildri en kryddaðri eik. Í munni eru miðlungstannín, hófleg sýra og miðlungs ávöxtur. Hindber, eik og krydd í þægilegu eftirbragðinui. Vínið hafði gott af umhellingu til að opna sig betur. 87 stig. Góð kaup (2.890). Fer vel með grísakjöti, fuglakjöti, laxi og ostum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Robert Parker gefur þessu víni 88 stig. Notendur Vivino eru heldur íhaldssamari og gefa víninu 3,5 stjörnur (1556 umsagnir þegar þetta er skrifað)

Cono Sur Pinot Noir Reserva Especial 2016
Cono Sur Pinot Noir Reserva Especial 2016 fer vel með grísakjöti, fuglakjöti, laxi og ostum.
4
87 stig

Vinir á Facebook