Chateau de Santenay Bourgogne Pinot Noir Vieilles Vignes 2017

Einhverra hluta vegna er það svo með marga vínunnendur, að þeir gerast óforbetranlegir pinotistar. Pinotistar eru á þeirri skoðun að það jafnist engin vín á við Pinot Noir – nánar tiltekið Pinot Noir frá Bourgogne í Frakklandi. Ég hef enn ekki hlotið þessa opinberun sem sumir vinir mínir hafa öðlast. Sennilega er það vegna þess að ég hef verið of mikill enologiskur sveimhugi til að fara á Pinot-vagninn. Hins vegar gleðst ég jafn mikið yfir góðum Pinot eins og yfir góðum Cabernet Sauvignon, eða Merlot, Sangiovese, Tempranillo, Malbec, Shiraz (þið sjáið hvert þetta er að fara hjá mér…).

Það er ekki fyrir hvern sem er að setja sig inn í vínin frá Bourgogne. Hér skiptir miklu máli hvaðan vínið kemur og staðsetning vínekrunnar er lykilatriði. Það eru 100 skilgreind vínhéruð (Appallations) í Bourgogne og þeim er skipt upp í 4 gæðastig – Bourgogne, Village, Premier cru og Grand cru. Allar Grand Cru-vínekrurnar (nema þær sem eru í Chablis) eru í Côte d’Or. Côte d’Or skiptist í Côte de Nuits (með 24 af 25 rauðu Grand Cru-vínekrunum) og Côte de Beaune (sem er með allar hvítu Grand Cru-vínekrurnar nema eina). Grand Cru rauðvín kosta oftast yfir 20.000 en Premier Cru um 7.000 – 15.000 krónur.

Fyrir sunnan Côte d’Or er svo Côte Chalonnaise, þar sem eru framleidd bæði rauðvín og hvítvín, yfirleitt í góðum gæðum þó þau séu ekki í sama gæðaflokki og vínin frá Côte d’Or. Syðst í Bourgogne er svo Beaujolais sem einkum er þekkt við rauðvín sem eru gerð úr þrúgunni Gamay. Þekktustu vínin undanfarin 20 ár eða svo eru líklega Beaujolais Nouveau, þunnt ávaxtaglundur sem var á sínum tíma vel heppnuð markaðsherferð sem skilaði því miður verra orðspori fyrir héraðið. Þorpsvínin (Villages) frá Beaujolais eru hins vegar fyrirtaksvín sem enginn ætti að vera svikinn af.

Sem betur fer, a.m.k. fyrir Pinot-vini mína, þá er alveg ágætt úrval af Pinot Noir í Vínbúðunum. Við uppflettingu i dag komu upp 62 vín (í 750 ml flöskum). Þar af eru 35 frá Frakklandi og 28 frá Bourgogne. Af alls 928 vínum þá eru þetta rúm 3%. Það verður líka að taka tillit til þess að af þessum 28 vínum þá kosta 26 meira en 3.000 krónur og 21 kostar meira en 5.000 krónur.

Það er svo annað mál að það fer að verða tímabært að setja saman almennilega pistla um allar helstu þrúgurnar og vínræktarsvæðin. Vonandi verður bætt úr því á næstunni.

Vín dagsins

Vel má vera að þetta (til þess að gera) háa verð fæli marga vínáhugamenn frá því að kaupa sér Pinot Noir frá Bourgogne. Vín dagsins er a.m.k. í viðráðanlegri hluta þessara vína og vel þess virði fyrir þá sem vilja kynnast þessari eðalþrúgu að prófa þetta vín. Vínið kemur frá vínhúsinu Chateau de Santenay sem er staðsett í Côte Chalonnaise. Frá Chateau de Santenay koma a.m.k. 7 hvítvín og 13 rauðvín, þar á meðal nokkur Premier Cru-vín. Vín dagsins er það sem maður gæti kallað byrjunarvínið frá þeim – þrúgur frá nokkrum héruðum innan Bourgogne og vínið þess vegna skilgrein sem vin de Bourgogne en ekki kennt við tiltekið þorp eða svæði. Að lokinni gerjun hefur það fengið að hvíla nokkra mánuði á eikartunnum.

Chateau de Santenay Bourgogne Pinot Noir Vieilles Vignes 2017 er ljósrúbínrautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður hindber, jarðarber, eik, hvítan pipar og ferskar kryddjurtir. Í munni eru miðlungstannín, þægileg sýra og gott jafnvægi. Miðlungsfylling með hindberjum, jarðarberjum, kryddum og mildri eik í þægilegu eftirbragðinu. Fer vel með fuglakjöti, svínakjöti, léttari lambakjötsréttum og mildum ostum. 89 stig. Góð kaup (3.690 kr). Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (276 umsagnir þegar þetta er skrifað)

Chateau de Santenay Bourgogne Pinot Noir Vieilles Vignes 2017
Chateau de Santenay Bourgogne Pinot Noir Vieilles Vignes 2017 fer vel með fuglakjöti, svínakjöti, léttari lambakjötsréttum og mildum ostum
4
89 stig

Vinir á Facebook