Luigi Baudana Bianco Dragon 2019

Vínhús Luigi Baudana er staðsett í Serralunga d’Alba í Piemonte-héraði. Líklega er þetta með minni vínhúsum héraðsins, því vínakrarnir ná aðeins yfir rúma 4 hektara. Þrátt fyrir það hefur Luigi Baudana í meira en 30 ár búið til fjögur mismunandi vín – eitt hvítvín og 3 rauð Barolo. Vínin hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og verið eftirsótt, því árleg framleiðsla er aðeins rúmar 3.000 flöskur af hverri tegund að undanskildu Barolo del Comune di Serralunga d’Alba, sem er framleitt í rúmum 8.000 flöskum.

Fyrir rúmum áratug fór Luigi Baudana að huga að því að setjast í helgan stein. Í stað þess að selja vínhúsið fékk hann Vajra-fjölskylduna til að taka það í „fóstur“, og frá 2009 hafa vín Luigi Baudana verið gerð í umsjá Vajra.

Ein af þrúgunum í víni dagsins kallast Nascetta. Þetta er hvít þrúga sem á uppruna sinn í Langhe í Piemonte. Hún gefur almennt af sér frekar lítið af þrúgum og þannig séð ekki mjög hagkvæmur kostur fyrir víngerðarmenn. Hún var samt ræktuð víða í Piemonte fram á 19. öld, en hvarf að mestu þegar rótarlúsarfárið gekk yfir Evrópu. Þó náðist að varðveita hana á nokkrum stöðum í Piemonte, m.a. í háskólanum í Tórínó. Ræktun hennar hefur aðeins aukist undanfarin án en það eru þó aðeins nokkrir víngerðarmenn sem senda frá sér vín úr þessari þrúgu. Þannig er aðeins að finna 22-23 vín úr Nascetta á vefsíðu Robert Parker og Wine Spectator.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunum Chardonnay, Sauvignon Blanc, Riesling og Nascetta. Upphaflega (á 9. áratug síðustu aldar) var vínið aðeins gert úr Chardonnay og Sauvignon Blanc. Síðar bættist Nascetta við og síðustu árgangar hafa einnig innhaldið dálítið af Riesling. Vínið er látið liggja í stáltönkum í 6 mánuði að lokinni gerjun áður en það er sett á flöskur.

Luigi Baudana Bianco Dragon 2019 er fölgult á lit og fallegt í glasi. Frísklegur sítrusilmur ásamt sólberjalaufum, ananas og suðrænum ávextir. Frískleg sýra, þægilegur ávöxtur og góð fylling, með sítrus, perum, nektarínum og ástaraldinum í góðu eftirbragðinu. 90 stig. Mjög góð kaup (3.190). Fer vel með fiskréttum, skelfiski, sushi og ljósu fuglakjöti.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (251 umsögn þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 89 sig. Þorri í Víngarðinum gefur 4,5 stjörnur.

Luigi Baudana Bianco Dragon 2019
Luigi Baudana Bianco Dragon 2019 er spennandi hvítvín sem fer vel með fiskréttum, skelfiski, sushi og ljósu fuglakjöti.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook