Mullineux Kloof Street Swartland Rouge 2018

Swartland heitir hérað í Suður-Afríku, um 50 kílómetra norður af Höfðaborg. Nafnið þýðir svartland og er dregið af rhinoceros-runnanum sem verður víst svartur í rigningu. Víngerð á sér nokkð langa sögu í Swartland. Um miðja 17. öld fluttu franskir Húgenottar til Suður-Afríku og tóku með sér vínvið frá heimalandinu. Þrúgurnar í Swartland eru líka flestar af frönskum uppruna og algengastar þær sömu og finna má í suðurhluta Frakklands.

Swartland er þurrt svæði og heitt. Fjöllin í kring veita skjól frá Atlantshafinu og þarna er mun hlýrra en á öðrum helstu vínræktarhéruðum Suður-Afríku. Vínviðirinn í Swartland er ræktaður sem runni (ekki hengdur upp á vír eða grind líkt og víða annars staðar) og þannig teygja ræturnar sig miklu dýpra ofan í jarðveginn þangað sem vatnið er. Þannig þolir vínviðurinn þurrkinn miklu betur. Vínviðurinn gefur þó ekki mikið af sér en þrúgurnar eru hins vegar kröftugar og bragðmiklar.

Í Swartland eru starfrækt samtök sjálfstæðra vínframleiðenda – Swartland Independent Producers (SIP) – sem gera miklar kröfur til víngerðar í héraðinu. Til að mynda er aðeins hægt að nota suður-franskar þrúgur í vínin og þrúgurnar verða að vera af góðum gæðum. Ekki er heimilt að eiga mikið við gerjunarferlið, s.s. að bæta við gersveppum, sýru eða öðrum efnum. Eikartunnur sem notaðar eru verða að vera franskar eikartunnur og að hámarki 25% þeirra mega vera nýjar. Þá er skilyrði að notaðar séu Búrgundy-flöskur. Þá er gerð sú krafa á félagsmenn að a.m.k. 80% framleiðslunnar sé seld undir þeirra merki.

Vínhúsið sem framleiðir vín dagsins er hluti af SIP. Þó svo að vínhús Mullineux sé ungt að árum – stofnað 2007 – þá hefur það náð mjög góðum árangri og víngerðarmennirnir Chris og Andrea Mullineux verið valin víngerðarmenn ársins bæði hjá Wine Enthusiast og Tim Atkins. Vín dagsins er s.k. annað vín (second wine) Mullineux, en þekktustu vín Mullineux eru eflaust aðalvínin þeirra Granite, Old Iron og Schizt, sem eru til bæði í rauðu (Syrah) og hvítu (Chenin Blanc).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Mullineux og Leeu í Swartland. Þetta vín er blanda Tinta Barocca (44%), Syrah (44%), Grenache (7%), Cinsault (4%) og Carignan (1%). Líkt og reglur SIP kveða á um eru lágmarks „afskipti“ af sjálfu gerjunarferlinu – aðeins er gætt að hitastig fari ekki yfir 28° og örlitlu súlfíði er bætt út í. Að lokinni gerjun er vínið sett á tunnur úr franskri eik, sem hafa verið notaðar 2-3 sinnum áður, þar sem vínið fær að hvíla í 11 mánuði áður en því er tappað á flöskur.

Mullineux Kloof Street Swartland Rouge 2018 er rúbínrautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður plómur, sólber, leður og svartan pipar. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og þokkalegur ávöxtur. Rúmlega miðlungsfylling með sólberjum, hrati, svörtum pipar og örlitlu súkkulaði í góðu eftirbragðinu. 88 stig. Góð kaup (3.190 kr). Fer vel með rauði kjöti hvers konar, einkum ef það hefur haft viðkomu á grillinu. Ætti að njóta sín vel næstu 2-3 árin en varla lengur en það.

Robert Parker gefur þessu víni 88 stig og fyrri árgangar hafa flestir verið að fá 88-90 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (332 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur þessum árgangi aðeins 85 stig en fyrri árgangar hafa yfirleitt verið að fá 88-90 stig.

Mullineux Kloof Street Swartland Rouge 2018
Mullineux Kloof Street Swartland Rouge 2018 fer vel með rauði kjöti hvers konar, einkum ef það hefur haft viðkomu á grillinu.
4
88 stig

Vinir á Facebook