Albert Bichot Château Gris Nuits-Saint-Georges Premier Cru Monopole 2018

Vínhús Albert Bichot er kannski ekki þekktasta vínhúsið í Bourgogne en það er hins vegar með stærri vínhúsum í Bourgogne. Bichot á nokkur vínhús í Bourgogne sem samtals ná yfir rúmlega 100 hektara lands, en flest vínhús Bourgogne hafa aðeins yfir örfáum hekturum að ráða. Þá er Bichot einnig s.k. negociant eða vínkaupmaður sem kaupir þrúgur frá öðrum og gerir vín í eigin nafni.

Saga Bichot-vínhússins nær aftur til ársins 1831 þegar Bernard Bichot stofnaði vínhús í eigin nafni. Reksturinn gekk vel og fyrirtækið dafnaði og keypti fleiri vínekrur. Fyrsti Albert Bichot var barnabarn Bernards og fyrirtækið er nú kennt við hann.

Chateau Gris er staðsett í Nuits-Saint-Georges í Bourgogne. Nafnið vísar til þaksins á aðalbyggingunni sem er með gráum steinskífum en ekki rauðbrúnni þakklæðiningu líkt og flest hús á þessum slóðum. Vínekrurnar, sem eru um 3,5 hektarar, eru líka óvenjulegar að því leyti að þær eru á stöllum (terraces) sem er líka óalgengt í Bourgogne. Líkt og á öðrum vínekrum í Bourgogne þá eru aðeins ræktaðar þrúgurnar Pinot Noir og Chardonnay. Frá Chateau Gris koma 2 vín – eitt rautt premier cru og eitt hvítt. Frá og með 2018-árgangnum er allt víngerðarferlið lífrænt hjá Chateau Gris.

Vín dagsins

Eins og áður segir er allt ferlið við gerð þessa víns lífrænt frá og með þessum árgangi. Það þarf vart að taka fram að hér er um hreint Pinot Noir að ræða sem að lokinni gerjun var látið hvíla í 12-15 mánuði í eikartunnum (um 25% nýjar tunnur).

Albert Bichot Château Gris Nuits-Saint-Georges Premier Cru Monopole 2018 er fallega kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður hindberjasultu, jarðarber, hvítan pipar og franska eik. Í munni eru miðlungstannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Silkimjúkt en örlítið kryddað bragð af hindberjum, jarðarberjum og eik sem heldur sér vel og lengi. Hefur gott af að hvíla í 2-3 ár til viðbótar áður en það fer að njóta sín að fullu. Frábært vín. 95 stig. Góð kaup (8.989 kr). Fer með með nautalund, lambakjöti og þroskuðum ostum.

Vivino 4.2 meðaltal allra árganga (304 umsagnir) – vantar umsagnir fyrir 2018. James Suckling gefur þessum árgangi 93 stig. Wine Enthusiast gefur 94 stig. Wine Spectator var ekki alveg jafn hrifið af þessum árgangi og gaf aðeins 87 stig.

Albert Bichot Château Gris Nuits-Saint-Georges Premier Cru Monopole 2018
Albert Bichot Château Gris Nuits-Saint-Georges Premier Cru Monopole 2018 er frábært vín sem fer með með nautalund, lambakjöti og þroskuðum ostum.
5
95 stig

Vinir á Facebook