Petit Verdot by Belle Vue 2016

Nýlega kom í vínbúðirnar nokkuð áhugavert vín sem er gert úr 100% Petit Verdot. Petit Verdot er nokkuð algeng íblöndunarþrúga í rauðvín frá Bordeaux, oftast um 2-5% á móti öðrum þrúgum. Það er hins vegar sjaldgæft að finna vín sem byggja að mestu eða eingöngu á þessari þrúgu. Við leit í gagnagrunni Robert Parker er aðeins að finna 659 vín sem byggja á Petit Verdot, af rúmlega 450.000 vínum í gagnagrunninum. En hvers vegna er svo lítið um þessi vín?

Petit Verdot hefur lengi verið ræktuð í Bordeaux og er þar notuð til íblöndunar í rauðvín. Hún þroskast hins vegar nokkuð seint og það varð til þess að vinsældir hennar minnkuðu og þrúgan fékk að víkja fyrir öðrum þrúgum sem þroskast fyrr. Hún er nú að mestu leyti notuð til að auka við tannín og lit í rauðvínum.

Petit Verdot hefur í seinni tíð orðið vinsælli á heitari vínræktarsvæðum, s.s. í Ástralíu, Kaliforníu og Chile. Í Ástralíu er t.d. Kingston Estate með um 1600 hektara af Petit Verdot, sem er meira en í öllu Bordeaux.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsinu Chateau Belle-Vue í Haut-Médoc. Auk þess að gera það vín sem hér er fjallað um þá gerir vínhúsið hefðbundið Bordeaux-rauðvín. Það vín er þó óvenjulegt að því leyti að það inniheldur allt að 20% Petit Verdot. Þetta vín kemur af vínvið sem er að meðaltali 77 ára gamall. Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í 14 mánuði á eikartunnum (20% nýjar tunnur). Um 15% vínsins var hins vegar látið liggja í stórum amfórum.

Petit Verdot by Belle-Vue 2016 er dökkrúbínrautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, leður, vanillu, anís, smá banana og fersk krydd. Í munni eru þétt tannín, góð sýra og ágætur ávöxtur. Leður, plómur, dökkt súkkulaði og svartur pipar í þéttu eftirbragðinu. Dálítið hrjúft vín sem rann engu að síður vel niður með nautasteikinni. 90 stig. Kemur aðeins við veskið (5.888 kr) en engu að síður vín sem er vert að prófa. Aðeins voru framleiddir 833 kassar af þessu víni og því hvalreki fyrir íslenska vínáhugamenn að fá þetta vín í vínbúðirnar.

Robert Parker gefur þessu víni 92 stig en Wine Spectator gefur aðeins 86 stig. Notendur Vivino gefa því 3.7 stjörnur (96 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Petit Verdot by Belle Vue 2016
Petit Verdot by Belle-Vue 2016 er áhugavert og fágætt vín sem vert er að prófa. Fer vel með nautasteikinni.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook