Apothic Red 2018

Nýlega skrifaði ég um Apothic Dark frá vínhúsi Apothic. Vín dagsins kemur frá sama vínhúsi og er kannski upphafið að velgengni vínhússins. Þessum vínum er ætlað að höfða til nýrrar kynslóðar vínáhugafólks sem vill bragðmikil og kröftug vín sem eru á góðu verði og tilbúin til neyslu nú þegar. Þetta eru líka ágæt byrjendavín en vonandi þroskast svo bragðlaukarnir og leiðir þessa nýju kynslóð í átt að fágaðri vínum.

Apothic framleiðir bæði rauðar blöndur og „einnar þrúgu“ vín, sem hafa þó flestar fengið stuðning frá öðrum þrúgum. Hvítvínið þeirra er sömuleiðis blanda nokkurra þrúga og væntanlega á það einnig við um rósavínið. Apothic hika ekki við að fara ótroðnar slóðir og á heimasíðu þeirra er að finna nokkrar uppskriftir að kokteilum þar sem vínin þeirra koma við sögu.

Vín dagsins

Líkt og hinar rauðu blöndurnar frá Apothic þá er hér á ferðinni blanda nokkurra þrúga. Að stofni til er vínið gert úr Zinfandel, en í blöndunni eru einnig Syrah, Merlot og Cabernet Sauvignon. Flestar þrúgurnar koma frá Lodi í Kaliforníu. Litlar upplýsingar hef ég annars fundið um sjálfa víngerðina.

Apothic Red 2018 er kirsuberjarautt á lit og unglegt. Í nefinu finnur maður kirsuber, dökkt súkkulaði og smá vanillu ásamt fleiri kryddum. Í munni er vínið örlítið sætt, með miðlungstannín og þokkalegan ávöxt. Þurrkuð kirsuber, sólber, brómber, kaffi og súkkulaði í kröftugu bragðinu. Aðeins aggressíft og skortir fínleika, en ég skil vel hvers vegna svona vín er vinsælt hjá byrjendum. Hentar vel með forkrydduðum grillmat, kjúklingi, svínakjöti, jafnvel austurlenskum mat. Ágæt kaup (2.398 kr). 86 stig. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.7 stjörnur (13.553 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Írskt Sangria með Apothic Red

Apothic Red 2018
Apothic Red 2018 er byrjendavænt vín sem hentar vel með forkrydduðum grillmat, kjúklingi, svínakjöti, jafnvel austurlenskum mat.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook