Peter Lehmann The Barossan Shiraz 2017

Vínin frá Peter Lehmann hafa fylgt okkur lungann úr þessari öld og fallið vel í kramið hjá íslenskum vínunnendum, enda afbragðs fín vín. Flest þekkjum við vínin úr Portrait-línunni svokölluðu og hið stórgóða Clancy’s sem fékkst um tíma í vínbúðunum. Saga Peter Lehmann og áhrifa hans í ástralskri víngerð er efni í sérstakan pistil en sá pistill þarf að bíða betri tíma.

Vín dagsins

Vín dagsins kallast THE Barossan og er gert úr 100% shiraz úr Barossa dalnum. Shiraz-þrúgan er auðvitað einkennisþrúga Barossa en Cabernet Sauvignon kemur þar skammt á eftir. Í THE Barossan-línunni eru einnig framleidd hrein Cabernet Sauvignon og Grenache-vín. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 12 mánuði á tunnum úr franskri og amerískri eik.

Peter Lehmann THE Barossan Shiraz 2017 er dökkrúbínrautt á lit, unglegt með þokkalega dýpt. Í nefinu eru plómur, leður, negull, lakkrís og eikartónar. Í munni eru góð tannín, rífleg sýra og fínn ávöxtur. Leður, eik, vanilla og plómur í góðu eftirbragðinu. Fer vel með nauti og lambi, einkum grilluðu. 89 stig. Góð kaup (3.199 kr). Drekkið á næstu 4-6 árum.

Þessi árgangur hlaut Gyllta Glasið 2019. Steingrímur í Vinoteki gefur þessu víni 4,5 stjörnur og Robert Parker gefur 90 stig.

Peter Lehmann The Barossan Shiraz 2017
4
90 stig

Vinir á Facebook