Nativ Irpinia Aglianico Blu Onice 2016

Fyrir rúmi ári komst ég í fyrsta sinn í kynni við þrúguna Aglianico, sem einkum vex í héruðunum Basilicata og Campania á Suður-Ítalíu. Reyndar hafa vínbændur í Kaliforníu og Ástralíu verið að reyna að rækta þessa þrúgu og náð þokkalegum árangri, en hún virðist kunna best við sig í jarðvegi í nágrenni eldfjalla. Þrúgan þroskast hægt og er oft ekki tilbúin til uppskeru fyrr en í Nóvember, a.m.k. í Suður-Ítalíu. Þrúgan gefur af sér þétt vín með hátt tanníninnihald og ríkulega sýru, og þau geta því elst nokkuð vel. Í Campaniu er Cabernet Sauvignon og Merlot oft blandað saman Aglianico.

Í dag eru 3 vín gerð úr Aglianico fáanleg í vínbúðunum og 2 þeirra flokkast sem náttúruvín.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsinu Nativ sem staðsett er í Irpinia, sem er í Campania. Vínhús þetta, sem stofnsett var árið 2008, sérhæfir sig í ræktun þrúga sem eru einkennandi fyrir Irpinia, s.s. Fiano di Avellino, Greco di Tufo, Falanghina og Aglianico. Þrjú vín frá Nativ eru fáanleg í vínbúðunum – rautt Aglianico og hvítvínin Greco di Tufo og Fiano di Avellino – allt prýðisgóð vín sem ég mæli með að þið prófið.

Vín dagsins er hins vegar eitt af flaggskipum vínhússins og kallast Blu Onice, en nafnið mun vera vísun í gamla Ónyx-námu í nágrenni vínekrunnar. Vínið er 100% Aglianico, og að lokinni gerjun er það látið liggja í 14 mánuði á frönskum eikartunnum áður en það fer svo á flöskur. Uppskeran hefur verið um 850-900 kassar á ári og ég var nýverið svo heppinn af komast yfir einn slíkan.

Nativ Irpinia Aglianico Blu Onice 2016 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefi eru plómur, sólber, leður, bláber, tóbak og súkkulaði ásamt ferskum kryddum. Í munni eru þétt tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Eftirbragðið er þétt og næstum aggressíft, með leðri, plómum og krydduðum bláberjum. Fyrir stórar steikur, grillmat og þroskaða osta. 92 stig. Mjög góð kaup (kostaði mig cirka 3.700 kr þegar ég keypti þetta á netinu en kostar nú 5.225 kr þegar vínið er komið í vínbúðirnar).

Nativ Irpinia Aglianico Blu Onice 2016
4.5
92 stig

Vinir á Facebook