Uppáhald komið í vínbúðirnar

Ég hef tekið því rólega við vínsmökkun undanfarnar vikur þó ég hafi verið blessunarlega laus við veiruna sem nú herjar á heiminn. Ég held að flestir vínunnendur ættu líka að gæta hófs í þeim efnum um þessar mundir, því veiran getur valdið lifrarbólgu og þá er gott að ekkert aukaálag sé á lifrinni. En lífið þarf líka að halda áfram þrátt fyrir þennan faraldur…

Það er orðið nokkuð langt síðan ég leit við í vínbúðunum. Ég tók þó eftir því að eitt af nýju vínunum í mars er gamalt uppáhaldsvín – Brancaia TRE 2016. Ég kynntist þessu víni fyrst í gegnum 2007-árganginn sem var hreint stórkostlegur og komst inn á topp 10-lista Wine Spectator á sínum tíma. Næstu árgangar á eftir voru ekki jafn stórkostlegir en voru þó vel frambærilegir. Eitt fyrsta vínið sem ég keypti mér í gegnum netsölu var Brancaia TRE 2016 – 9 flöskur sem hafa vakið mikla lukku (bara 2 eftir…).

Nafnið TRE vísar til þess að vínið er gert úr 3 þrúgum – Sangiovese, Merlot og Cabernet Sauvignon

Sá árgangur sem er í hillum vínbúðanna er einmitt 2016-árgangurinn sem er einn sá besti síðan 2007 – fær 91 stig hjá Wine Spectator og 90 hjá Robert Parker. Mæli með því að þið kíkið á þetta – passið ykkur bara á því að halda 2 metra fjarlægð og ekki vera að káfa neitt á flöskunum til að skoða miðann betur, takið bara þær sem þið ætlið að kaupa.

Ps. Ég þekki birgjann ekki neitt og engir hagsmunaárekstrar hér á ferð.

Vinir á Facebook