Alþjóðlegi Malbec-dagurinn

Alþjóðlegi Malbec-dagurinn var í gær. Samtök vínframleiðenda í Argentínu komu þessari hátíð á koppinn árið 2011 til að vekja athygli á Malbec-þrúgunni. Ég verð að játa að þetta fór alveg fram hjá mér enda hef ég vísvitandi ekki verið að skrifa mikið um vín á þessum síðustu vikum þó svo að ég hafi hingað til sloppið við kórónaveiruna. Sem betur fer átti ég þó smávegis til að Malbec í kælinum mínum þannig að við gátum fagnað deginum við hæfi – grillað kjöt og gott Malbec.

Malbec er ein af sex þrúgutegundum sem heimilt er að nota í rauðvín í Bordeaux (hinar þrúgurnar eru Cabernet-systurnar Sauvignon og Franc, Merlot, Petit Verdot og Carmenere). Í Frakklandi hefur Malbec hins vegar notið sín best í Cahors í suðvesturhluta Frakklands. Þó svo að þrúgan sé ræktuð víða um heim hefur hún undanfarinn áratug eða svo verið kennd meira og meira við Argentínu.

Tæplega helmingur alls rauðvíns sem drukkinn er í Argentínu er gert úr Malbec og þrúgan því réttilega kölluð flaggskip argentískrar víngerðar. Þrúgan kemur þó ekki bara fyrir í rauðvínum, því hún hefur líka verið notuð í rósavín (þrúgan er þá tínd fyrr og gerjunartíminn styttur) og í freyðivín gerð með kampavínsaðferðinni.

Í vínbúðunum koma upp 24 vín – öll rauð, og þar af 3 kassavín – sem kosta frá 1.599 kr upp í 5.799 kr. Ég held að ég hafi á einhverjum tímapunkti fengið að smakka meirihlutann af þessum vínum og leyfi mér að halda fram að flestir, ef ekki allir, ættu að vera ánægðir með vínin sem kosta um 3.000 og upp úr (en það á kannski við um flest öll vínin í Vínbúðunum?).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur auðvitað frá Mendoza-héraði í Argentínu, frá vínhúsinu Renacer. Bodega Renacer er tiltölulega ung víngerð sem samkvæmt vefsíðunni framleiðir 12 mismunandi vín, þar af 4 mismunandi Malbec (eitt af þeim er rósavín). Hér er á ferðinni hreint Malbec sem hefur aldrei komist í snertingu við eik og er ekki ætlað til langrar geymslu.

Bodega Renacer Punto Final Malbec 2018 er dökkfjólurautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu eru skógarber, bláber, súkkulaði, örlítið af rúsínum og smá krydd. Í munni er vínið óvenjumjúkt fyrir svona ungan Malbec og það fer lítið fyrir tannínum, sýran er hófleg og miðlungs ávöxtur. Bláber og súkkulaði ráða ferðinni í mildu eftirbragði. 88 stig. Fer vel með grilluðu nautakjöti og ýmsum tapasréttum.

Robert Parker gefur þessu víni 87 stig og aðrir árgangar hafa verið að fá 87-89 stig. Notendur Vivino.com gefa 3,7 stjörnur (1346 umsagnir þegar þetta er skrifað) og fyrri árgangar hafa verið að fá 3,5 – 3,7 stjörnur.

Renacer Punto Final Malbec 2018
Hreint Malbec sem hefur aldrei komist í snertingu við eik og er ekki ætlað til langrar geymslu. Mjúkt og einfalt vín sem fer vel með grillmat og tapas.
3.5
88 stig

Vinir á Facebook