Þetta verðið þið að prófa!

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að flestir ef ekki allir vínunnendur á Íslandi þekkja vínin frá Concha y Toro. Vínin þeirra hafa fengist hér í áraraðir og verið með þeim söluhæstu ár eftir ár, og ekki að ástæðulausu. Casillero del Diablo, Casa Concha, Terrunyo og svo auðvitað Don Melchor. Marques de Casa Concha hefur verið til í rúm 30 ár en líklega ekki meira en áratugur síðan þessi vín urðu fáanleg hérlendis (þetta er sagt með þeim fyrirvara að ég bjó erlendis í áratug, flutti aftur heim 2012 og sá þessi vín fyrst eftir það). Vínin í þessari línu hafa við mjög stöðug hvað gæði varðar og verið mjög örugg kaup (aðeins eitt vín í þessari línu fengið minna en 86 punkta hjá Wine Spectator frá aldamótum).

Nýjasta viðbótin í Casa Concha-línuna er Etiqueta Negra – Bordeaux-blanda með um 60% Cabernet Sauvignon, 30% Cabernet Franc og 10% Petit Verdot. Mér sýnist þetta vín hafa komið fyrst árið 2016 og viðtökurnar hafa vægast sagt verið mjög góðar, enda um mjög gott vín að ræða.

Vín dagsins

Vínið með svarta miðanum er dæmigerð Bordeaux-blanda eins og áður segir – um 60% Cabernet Sauvignon, 30% Cabernet Franc og 10% Petit Verdot, sem koma frá Puento Alto í Maipo-dalnum. Vínið er látið liggja í 16 mánuði á tunnum úr franskri eik (um 60% nýjar tunnur, 40% notaðar tunnur) áður en það fer á flöskur.

Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra 2017 er kirsuberjarautt á lit, með sæmileg dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, pipar, leður, blýantur, sólber og ögn af anís. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Bláber, leður, pipar, tóbak og kakó í flottu eftirbragðinu. Vínið steinliggur með grillaðri nautasteik! 93 stig. Frábær kaup (3.799 kr)

James Suckling gefur þessu víni 93 stig. Robert Parker gefur 91 stig og Wine Spectator gefur 94 stig. Notendur Vivino.com gefa því 4,2 stjörnur (730 umsagnir).

Þetta verðið þið að prófa!
Frábært vín!
Vínið með svarta miðanum er frábær Bordeaux-blanda sem gefur Don Melchor lítið eftir. Hugsanlega ein bestu kaupin í ríkinu í dag.
5
93 stig

Vinir á Facebook