Mommessin Beaujolais-Villages 2016

Beaujolais er nafn sem margir vínáhugamenn kannast við en ekki er víst að margir hafi prófað annað en Beaujolais Nouveau – en svo nefnast vínin sem opna má þriðja fimmtudag í nóvember ár hvert, og eru fyrstu vínin af uppskeru ársins. Víða hefur verið mikið húllumhæ í kringum þetta fyrirbæri og fyrir rúmum 20 árum kom það meira að segja fyrir að vínin voru flutt til Íslands með einkaþotu til að vínþyrstir Íslendingar gætu notið þessara veiga og tekið þátt í djamminu. Nú eru víst breyttir tímar en það er enn sama hátíðin í Beaujolais og í Frakklandi almennt í nóvember ár hvert. Hins vegar hefur þetta vín haft slæm áhrif á orðspor Beaujolais-vína, því neytendur spyrða öðrum vínum héraðsins oft saman við Nouveau-vínin og þegar upp var staðið hafði hin mikla markaðssetning þessara vína slæm áhrif á heildarvínsölu héraðsins.

Samt er það nú svo að Beaujolais Nouveau á ósköp lítið skylt við önnur vín frá héraðinu. Beaujolais er staðsett syðst í Búrgúndí en heimamenn taka sig almennt ekki jafn alvarlega og nágrannar þeirra í norðri. Þannig má segja að Beaujolais sé minnsta húsið í fínasta hverfinu í Frakklandi! Bestu vínin frá Beaujolais má alveg bera saman við ágæt Búrgúndarvín, en hafa ber í huga að í Beaujolais er allt önnur rauð þrúga á ferðinni – Gamay. Vínin eru almennt mjög góð matarvín og falla vel að nánast öllum mat – allt frá laxi til hreindýra!

Almennt má skipta vínum frá Beaujolais í 3 gæðaflokka – Beaujolais AOP, Beaujolais Villages AOP og svo Cru Beaujolais sem er efsti gæðaflokkurinn. Beaujolais AOP er stærsti flokkurinn (honum tilheyra 96 þorp og vínekrur þeirra) og nær að mestu yfir suðurhluta héraðsins. Beaujolais Nouveau tilheyrir þessum gæðaflokki. Þessi vín eru almennt létt, ekki mjög áfeng (um 10-12%) og þau einkennir keimur af hindberjum, jarðarberjum og fleiri rauðum berjum, og hér getur maður jafnvel greint smá bananakeim. Í Beaujolais Villages er 38 þorp og þar af mega 30 setja nafn sitt á flöskumiðann (svona getur frönsk vínlöggjöf verið snúin) og vínin þaðan eru almennt þéttari, með meiri steinefna- og sólberjakeim í sambland við jarðarberin og hindberin.

Toppurinn í Beaujolais eru svo Cru Beaujolais, en þau eru 10 talsins – öll í norðurhlutanum – og þar eru aðeins gerð rauðvín. Vínin frá þessum þorpum hafa öll sín sérkenni og á flöskumiðanum stendur yfirleitt aðeins nafn þorpsins sem vínið kemur frá. Í Saint-Amour eru reyndar 12 vínekrur sem leyfilegt er að nafngreina á flöskumiðanum, s.s. Les Champs Grillés, Les Bonnets og En Paradis, svo nokkur séu nefnd. Þorpin 10 í Cru Beaujolais eru Saint-Amour, Juliénas, Chénas, Moulin-à-Vent, Fleurie, Chiroubles, Morgon, Régnié, Cote-de-Brouilly og Brouilly.

Vín dagins

Í vínbúðunum er að finna 2 Beaujolais-Villages og 2 Cru Beaujolais. Vín dagsins kemur frá vínhúsi Mommessin, sem rekur sögu sína aftur til ársins 1865. Þrúgurnar koma af vínekrum við þorpið Blacé í suðurhluta Beaujolais. Líkt og með önnur rauðvín frá héraðinu þá er einungis þrúgan Gamay notuð við víngerðina.

Mommessin Beaujolais-Villages 2016 er kirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska og miðlungsdýpt. Í nefinu er dæmigerður Beaujolais-ilmur af jarðarberjum, hindberjum, lakkrís, brómberjum og aðeins vottar fyrir appelsínuberki. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur. Hindber, jarðarber og krydd í ágætu eftirbragðinu. Hefur gott af smá umhellingu og má alveg bera fram örlítið undir stofuhita (í kringum 14 gráður). Einstaklega matarvænt vín sem fer vel með lambi, fuglakjöti, pastaréttum og ostum á borð við Comté, Gruyere og Emmenthaler. MJög góð kaup (2.799 kr). 89 stig. – Sýnishorn frá innflytjanda.

Þorri Hringsson gefur þessu víni 4 stjörnur og notendur Vivino.com gefa þessu víni 3.8 stjörnur (36 umsagnir).

Mommessin Beaujolais-Villages 2016
4
89 stig

Vinir á Facebook