Christophe Pichon Saint-Joseph Blanc 2018

Þau eru ekki mörg hvítvínin í vínbúðunum sem koma frá Rónarhéraði. Nánar tiltekið eru þau 2 – eitt Cotes du Rhone og eitt Chateauneuf-du-Pape. Það er reyndar í frásögur færandi að sjá hvítt Chateauneuf-du-Pape í vínbúðunum, því þau eru mjög lítill hluti framleiðslunnar í Chateauneuf-du-Pape (og reyndar er vínið hvergi fáanleg í vínbúðunum þegar þetta er skrifað, en það er annar handleggur).

Hins vegar eru hvítvín frá Rónarhéraði oft afbragðsgóð, einkum þau frá norðurhluta héraðsins og þá sérstaklega frá Condrieu. Aðalþrúgurnar eru Viognier, Marsanne og Roussanne. Hvítvínin frá suðurhlutanum eru hins vegar oftast blönduð úr mörgum þrúgum, s.s. Ugni blanc, Roussanne, Bourboulenc, Picpoul og Clairette, en þessar þrúgur sér maður sjaldan í öðrum héruðum.

Ég komst nýlega yfir kassa af hvítvíni og rauðvíni frá Domaine Christophe Pichon, sem er lítið fjölskyldufyrirtæki sem á alls 23 hektara af vínekrum í Condrieu, Côte Rôtie, Cornas og Saint Joseph. Vínin hans hafa verið að fá nokkuð góða dóma hjá Robert Parker og hjá notendum Vivino.com.

Vín dagsins

Vín dagsins er sem sagt hvítvín frá Saint-Joseph í norðurhluta Rónarhéraðs. Vínið er gert úr þrúgunum Marsanne (95%) og Roussanne (5%). Að lokinni gerjun er það látið liggja í 10 mánuði á notuðum tunnum úr franskri eik.

Christophe Pichon Saint-Joseph Blanc 2018 er strágult, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður gul epli, perur, sítrusávexti og það vottar fyrir apríkósum. Í munni er hæfileg sýra, fínn ávöxtur og góð fylling. Apríkósur, perur og smá hunang í góðu eftirbragðinu sem heldur sér nokkuð vel. Fer vel með ljósu kjöti og skelfiski. 92 stig.

Ég fann enga dóma um þennan árgang (enda glænýr) en á vivino.com er vegin meðaleinkunn allra árganga 4.3. Robert Parker hefur verið að gefa fyrri árgöngum af þessu víni 90-91 stig.

Christophe Pichon Saint-Joseph Blanc 2018
4.5
92 stig

Vinir á Facebook