Áramótauppgjör Vínsíðunnar 2018

Þá er 21. starfsár Vínsíðunnar senn á enda.  Þetta ár hefur á margan hátt verið viðburðaríkt og ber þar hæst að Vínsíðan færðist loks aftur yfir á íslenskt lén – vinsidan.is – eftir að hafa verið .com frá árinu 2001.

Á þessu ári hafa verið birtir 95 víndómar en nokkuð fleiri vín en það hafa verið smökkuð og nokkrar umsagnir sem bíða birtingar, en þær verða bara að bíða fram yfir áramót.  Það var mikill kraftur í Vínsíðunni fyrri hluta árs en svo færðist smá værð yfir ritstjórann í kjölfar magnaðrar afmælisferðar Vínklúbbsins til Rioja í lok maí.  Aðeins lifnaði yfir ritstjóra í árslok og stefnt að því að byrja nýtt ár með nýjum krafti.

Það eru nokkur vín sem standa upp úr þegar árið er gert upp.  Eitt af fyrstu vínunum sem ég smakkaði á árinu var Luis Canas Rioja Reserva 2011 og það hlaut eina af hæstu einkunnunum sem ég gaf á árinu.  Hefði ég smakkað það bara 1-2 vikum áður hefði það sennilega verið valið vín ársins 2017 en þar sem þessi árgangur er löngu búinn í Vínbúðunum og nýr tekinn við, þá ætla ég ekki að taka vínið til greina sem eitt af vínum árins 2018.  Annað eftirminnilegt vín sem drukkið var á árinu er Chateau Cos d’Estournel 2005 sem ég hafði átt í kæli í rúman áratug og opnaði í tilefni þess að dóttir mín átti afmæli og við „sigruðum“ Argentínu 1-1 á HM í Rússlandi, en það setti nýjan standard í viðmiðum mínum á frönskum vínum.  Í haust smakkaði ég líka Chateau Mouton-Rothschild 2012 sem ég á eftir að segja ykkur frá.

Ég hef (a.m.k. í seinni tíð) reynt að velja vín ársins út frá gæðum, verði og aðgengileika, en mér finnst að vínið eigi helst að vera til í Vínbúðunum þegar það er valið vín ársins.  Þegar hvítvín árins eru skoðuð þá dettur mér fyrst í hug að nefna vín á borð við Rene Mure Alsace Signature Pinot Gris 2016 sem fékk 92 stig og kostar ekki nema 2.599 kr, og Weingut Bründlmayer Grüner Veltliner Trocken Kamptal Terrassen 2013 sem fékk einnig 92 stig (2.990 kr).

Rauðvínin voru öllu fleiri (líkt og flest árin hjá mér) og ég var reyndar mest að njóta spænskra vín á þessu ári – kannski er það afleiðing áðurnefndrar heimsóknar til Rioja-héraðs í vor.  Af þeim rauðvínum sem hlutu umsögn á árinu ber hæst vín á borð við Marques de Caceres Rioja Reserva 2012( 93 stig, 3.889 kr), Catena Alta Malbec 2013 (93 stig, 4.498 kr), Domaine de La Baume Syrah Le Jeunesse 2015 (90 stig, 2.199 kr), Bodegas Luis Cañas Reserva Selección de la Familia 2012 (92 stig, 3.699 kr) og Altano Reserva Douro 2014 (90 stig, 2.599 kr), svo nokkur séu nefnd.

Vín ársins 2018

Það vín sem hins vegar ber af öllum hinum og hlýtur titilinn Vín ársins 2018 er hins vegar Morandé Adventure Mediterraneo 2013 sem ég gaf 92 stig og það kostar ekki nema 2.999 kr.  Þetta er um margt áhugavert vín – vín frá Chile í suður-frönskum stíl, inniheldur 2 þrúgur sem við sjáum yfirleitt bara í hvítvínum, og er afrakstur samstarfs víngerðarmanna nokkurra framúrskarandi vínhúsa í Chile. Þetta er ákaflega matarvænt vín og getur líklega sýnt sínar bestu hliðar á næstu 5-8 árum. Vínklúbburinn blindsmakkaði þetta vín fyrir skömmu og gaf því 94 stig!  Þorri Hringsson gaf því líka 4,5 stjörnur og var víst ekki langt frá því að gefa fullt hús.

Vinir á Facebook