Cune Gran Reserva 2011

Þá eru áramótin að baki og 21. starfsár Vínsíðunnar hafið.  Það er kannski við hæfi að hefja árið á svipuðum nótum og einkenndu síðasta starfsár – með Rioja Gran Reserva-víni.

Við höfum fengið að njóta hinna frábæru 2010 og 2011 árganga undanfarin ár – fyrst Crianza, þá Reserva og nú loks Gran Reserva. Þó að ég hafi margoft drukkið þessi vín þá sýnist mér að ég hafi hreinlega gleymt að skrifa um þau – a.m.k. finn ég bara umsögn um Crianza 2010.  Hér verður greinilega að gera bragarbót!

Vín dagsins

Fyrsta vín dagsins á árinu 2019 er klassískt Rioja-vín í „nýja“ stílnum, þ.e. ávaxtaríkt og aðgengilegt en minni eik en áður einkenndi Gran Reserva-vínin.

Cune Rioja Gran Reserva 2011 er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroska.  Í nefinu finnur maður vanillu, eik, leður, kirsuber, marsipan og pipar.  Í munni eru flott tannín, góð sýra og þétt fylling. Leður, súkkulaði, kirsuber og vanilla ráðandi í góðu eftirbragðinu sem heldur sér nokkuð vel. 90 stig. Góð kaup (3.499 kr).  Mjög gott steikarvín.

Hvað segja hinir?

Wine Spectator gefur 90 stig.

Wine Enthusiast gefur 91 stig.

Vivino gefur 4.0

Vinir á Facebook