Topp-10 listinn væntanlegur

Top100_2013_100Á hverju ári birtir tímaritið Wine Spectator lista yfir þau vín sem þeir telja hafa skarað fram úr á árinu.  Niðurtalningin er nú hafin og búið að birta vínin í sætum 7-10.  Á morgun koma vínin í sætum 5 og 6, sæti 2-4 koma á fimmtudag og á föstudaginn verður svo ljóst hvaða vín hlýtur útnefninguna vín árins.  Topp-100 listinn verður svo birtur í heild sinni á mánudaginn.  Við valið á þessum vínum er tekið mið af einkunn, verði, framboði (framleiddu magni) og svo ákveðnum X-þætti, sem snýr að því hversu spennandi vínið er (hvernig svo sem það er skilgreint).  Í ár verður hlutur X-þáttarins veigameiri en áður og ég geri því fastlega ráð fyrir að vín ársins verði amerískt, líkt og undanfarin ár.
Ég hef undanfarin ár reynt að komast yfir eitthvað af þessum vínum og yfirleitt hafa einhver þeirra verið fáanleg í Svíþjóð, og einhver hafa meira að segja verið fáanleg á Íslandi.  Nú verður auðvitað erfiðara fyrir mig að ná mér í eitthvað af þessum vínum, því það eru jú takmörk á því hvað ég get tekið mikið með mér í hverri ferð.  Þá skiptir verðið líka miklu máli (eins og það gerir oftast) en þar sem þetta snýst um hlutfall verðs og gæða þá eiga rándýru vínin aðeins erfiðara með að komast hátt á þessum lista.  Meðalverð vína á listanum í fyrra var $51, sem gera rúmar 6 þúsund krónur, og verður að teljast viðráðanlegt – þetta eru jú einu sinni sérstök vín sem um ræðir.
Í dag er sem sagt búið að greina frá því hvaða vín eru í sætum 7-10 (verðin eru amerísk):
10. sæti – Quilceda Creek Cabernet Sauvignon Columbia Valley 2010 (Washington, USA) – 95 stig, $135
9. sæti – Lewis Cabernet Sauvignon Napa Valley Reserve 2010 (Kalifornía, USA) – 96 stig, $135
8. sæti – Château de Beaucastel Châteauneuf-du-Pape 2010 (Rhone, Frakkland) – 96 stig, $120
7. sæti – Domaine du Pégaü Châteauneuf-du-Pape Cuvée Réservée 2010 (Rhone, Frakkland) – 97 stig, $120
Ekki er auðvelt að geta sér hvaða vín munu verða í efstu sætunum, því þau vín sem þegar hafa verið nefnd eru á meðal þeirra sem hlutu flest stig, kosta undir $200 og voru framleidd í meira en 1.000 kössum.  Kannski verður þetta ár púrtvínanna, því hæsta einkunn vína sem uppfylla þessi skilyrði (mín eigin skilyrði) er Dow Vintage Port 2011 sem hlaut 99 stig, kostar rúma $80 og er framleitt í 5.000 kössum (ég er búinn að panta 2 flöskur af því!).  Næstu vín á þessum lista eru líka púrtvín, en ég held að þau hafi ekki þennan X-þátt sem ritstjórarnir leggja nú aukna áherslu á.  Það verður kannski spánverji á borð við Muga Rioja Selección Especial Reserva 2009 (95 stig, $43, 4.000 kassar)?
Nei, ég held að það verði enn eitt Kaliforníuvínið og að nú sé röðin komin að Helen Turley, sem þeir hjá Wine Spectator þreytast aldrei á að fjalla um, og Marcassin Pinot Noir Sonoma Coast Marcassin Vineyard 2007 (96 stig, $125, 1.250 kassar og fullt af X-factor).

Vinir á Facebook