Beaujolais Nouveau-dagurinn

Hann er kominn – þriðji fimmtudagur í nóvember. Í dag má hefja sölu á Beaujolais Nouveau-vínum, en reglurnar kveðja einmitt á um það að salan megi hefjast þennan þriðja fimmtudag í nóvember ár hvert. Fyrir 20-25 árum var mikið húllumhæ þennan dag. Vínin voru flutt með einkaþotum til þyrstra neytenda sem biðu spenntir eftir þessu fyrsta víni ársins, því ekki mátti hefja sölu fyrr en eftir miðnætti aðfararnótt fimmtudagsins. Concorde þotur fluttu vínin vestur um haf til Bandaríkjanna, þar sem eftirvæntingin var engu minni. Frá 2010 var svo leyft að flytja vínin til seljenda nokkrum dögum fyrr svo að vínin væru komin í verslanir þegar salan mátti hefjast.

Svo minnkaði áhuginn fyrir þessum vínum, salan dróst saman og áhrifin á efnahag bænda í Beaujolais voru umtalsverð. Margir neytendur tengdu önnur vín frá Beaujolais við Nouveau-vínin og sala annarra vína frá Beaujolais dróst verulega saman. Tekjur vínbændanna minnkuðu, þeir þurftu að ganga í varasjóði sína og áttu jafnvel erfitt með að sinna hefðbundnu og nauðsynlegu viðhaldi vínekra og tækja. Beaujolais hefur þó rétt úr kútnum og neytendur hafa aftur áttað sig á að önnur vín frá Beaujolais eru prýðisgóð og almennt gæðavín þar á ferð.

Margir hafa þó lýst Beaujolais Nouveau sem ómerkilegu glundri, en aðrir – þar á meðal Robert Parker, einn þekktasti víngagnrýnandi heims – hafa tekið upp hanskann fyrir vínin. Samanburður við hefðbundin rauðvín er heldur ekki sanngjarn, því þau eru nær öll gerð með allt annarri aðferð. Framleiðsluferlið er ekki eins einfalt og halda mætti, og það er í raun kúnst að gera þetta vel. Það hefur svo sem ekki farið hátt, en nouveau-vín eru gerð í mörgum vínhéruðum Frakklands, s.s. Bordeaux, Búrgúndí, Languedoc og Loire. Víngerðarmenn í öðrum löndum (s.s. Ítalía, Bandaríkin, Spánn) hafa verið að feta sig áfram í gerð nouveau-vína úr ýmsum þrúgum, s.s. Zinfandel, Pinot Noir, Tempranillo og meira að segja Riesling.

Hvernig vín er Beaujolais Nouveau?

Þetta eru rauðvín, gerð úr þrúgunni Gamay, líkt og önnur rauðvín frá Beaujolais, en þar lýkur samanburðinum. Framleiðsluferlið er mjög frábrugðið annarri víngerð í Beaujolais. Þrúgurnar eru gerjaðar með s.k. carbonic maceration, þar sem þær eru ekki kramdar fyrir gerjun heldur gerjaðar heilar. Neðstu þrúgurnar í tönkunum kremjast auðvitað undan þunga þrúganna ofar og þannig hefst gerjunarferlið sem berst upp til þrúganna ofar. Tankarnir eru fylltir með koldíoxíði til að fjarlægja súrefni sem annars myndi skemma þrúgurnar og vínið. Með þessari gerjunaraðferð verða vínin mjög ávaxtarík og innihalda lítið af tannínum (þau eru jú að mestu í hýði þrúganna).

Vínin eru fjólurauð á lit og ungleg, enda aðeins 6-8 vikur liðnar frá uppskeru og vínin hafa ekki fengið neinn tíma til að þroskast. Vínin eru sýrurík og innihalda mjög lítil tannín (það á almennt við um vín sem eru gerð með carbonic maceration-aðferðinni). Yfirleitt hafa þau frísklega ávaxtatóna, þar sem rauð kirsuber, jarðarber og hindber eru mest áberandi, en einnig er algengt að finna lykt af banönum, fíkjum, greipaldin og perubrjóstsykur. Þorpsvín – Beaujolais Villages-Nouveau – eru oft bragðmeiri og ávaxtaríkari en einföld Nouveau-vín. Vínin ætti að drekka aðeins kæld (12-14°C). Vínin eru ekki ætluð til geymslu og ætti að drekka innan nokkurra mánaða. Þau ættu að þola geymslu í 2-3 ár en það er óþarfi að geyma þau því þau batna ekki við geymslu.

Samkvæmt vef Vínbúðanna ætti eitt Beaujolais Nouveau-vín að vera fáanlegt í hillum vínbúðanna frá og með deginum í dag. Er ekki tilvalið að prófa?

Vinir á Facebook