Af hverju fæst þetta ekki í Vínbúðunum?

Ég þurfti aðeins að bregða mér út fyrir landsteinana á fund og hafði smá tíma aflögu. Ég var búin að komast að því að handan við hornið er ein af betri vínbúðum Svíþjóðar – í Svíþjóð eru nefnilega þrjár vínbúðir (í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö) þar sem þú getur keypt nánast allt. Ég var líka búinn að komast að því að á morgun verða ýmsar nýjungar settar í sölu, þar á meðal ýmis púrtvín sem ég væri til í að eignast, t.d. Dow’s 2011, en búðin hér í Malmö fær bara 12 flöskur og jafnvel minna af öðrum tegundum! Ég ákvað að kíkja þarna við og skoða úrvalið og spjallaði aðeins við manninn sem sér um vínkælinn þar sem öll herlegheitin eru geymd. Hann vildi því miður ekki leyfa okkur að taka forskot á sæluna og selja okkur vínin í dag en bauð mér að bíða fyrir utan, því að jafnaði væri komin biðröð löngu áður en búðin opnar og það hefur komið fyrir að danskir vínáhugamenn hafi beðið yfir heila helgi þegar einhver herlegheitin voru sett í sölu. Mér fannst því ólíklegt að það yrði nokkuð eftir handa mér seinni partinn á morgun. Sá sænski hafði auðvitað ýmislegt annað að bjóða – t.d. Chateau Petrus á 22.500 stykkið (þ.e. sænskar krónur – kassann með 6 flöskum hefði því kostað mig um 3 milljónir…) og önnur spennandi vín – Margaux, Mouton Rothschild, Cheval Blanc og önnur vín sem mann getur bara dreymt um.
Nú er það auðvitað þannig að við þurfum kannski ekki að hafa öll dýrustu vín heims aðgengileg í vínbúðunum, en við getum haft eitthvað af gæðavínum sem henta vel til lengri geymslu, og þegar maður splæsir hárri upphæð á vín sem maður ætlar sér að geyma í einhver ár, þá vill maður vera viss um að vínið hafi verið geymd við góð skilyrði.  Það væri því vel hægt að bæta við öðrum kæli í Heiðrúnu (sem má alveg vera læstur) og eins setja upp góðan kæli/kæla í Kringlunni.
Á leiðinni út rakst ég hins vegar á tvær flöskur sem minn fjárhagur ræður við: E. Guigal Cote Rotie Brune et Blonde 2009 og Wynn’s Michael Shiraz 2010. Þær fá að njóta sín í kælinum mínum í nokkur ár til viðbótar!
20131031-160020.jpg

Vinir á Facebook