Er Beaujolais að fara á hausinn?

Flestir þekkja til Beaujolais Nouveau. Fyrir rúmum áratug var yfirleitt mikið húllumhæ þegar þessi vín fóru í sölu þriðja fimmtudag nóvembermánaðar. Vínin voru flutt með einkaþotum víða um heim, m.a. til Íslands, til þess að vínunnendur gætu notið fyrstu vínanna í nýrri uppskeru ár hvert. Beaujolais Nouveau eru þó svo ólík hefðbundnum Beaujolais-vínum að þau eiga í raun ekkert sameiginlegt annað en að koma frá sama héraði og vera búin til úr sömu þrúgunni (Gamay). En nú virðist hið margrómaða sölubrella vínbændanna í Beaujolais vera orðinn þeim fjötur um fót. Margir neytendur tengja önnur Beaujolais-vín við Nouveau og telja þau ekki standa jafnfætis öðrum vínum (þó svo að það sé alls ekki rétt, því það mörg Beaujolais-vín standa vínum frá Bordeaux og Bourgogne lítið að baki). Þetta hefur þó orðið þess valdandi að sala á Beaujolais-vínum hefur dregist saman og komið illa við efnahag héraðsins. Beaujolais hefur ekki skilað neinum tekjuafgangi sem heitið getur undanfarin 2-3 ár. Vínbændur skortir því fé til að viðhalda vínekrunum og svo þegar uppskerubrestur verður, líkt og gerðist í fyrra í kjölfar slæmra vaxtarskilyrða allt sumarið, þá eru sjóðirnir tómir og bændur ramba því á barmi gjaldþrots. Nú óttast menn að allt að 10% vínbænda sjái fram á gjaldþrot.
Margir þeirra geta þó sjálfum sér um kennt eftir að hafa tekið þátt í að grafa undan orðspori eigin vína. Hins vegar er alveg óhætt að mæla með hefðbundum Beaujolais-vínum, einkum ef menn komast yfir cru Beaujolais.  Því miður eru aðeins tvö Beaujolais-vín fáanleg í vínbúðum ÁTVR (og engin cru)…

Vinir á Facebook