Bordeaux 2010

Þegar 2000-árgangurinn af Bordeaux kom voru margir gagnrýnendur sem varla héldu vatni – sögðu hann stórkostlegan, betri en 1982, 1959, jafnvel betri 1947 og nánast eins og 1929 – slík voru gæðin.  Svo kom 2001 og þá voru stóru orðin ekki spöruð.  Svo kom 2003, 2005, 2007 og loks 2009 sem sagður var jafnvel betri en hinn rómaði 1929 og þar með einn besti árgangur allra tíma.  Var hægt að gera betur?  Jú, það lítur út fyrir það, því 2010 er víst ekki síðri en 2009 og þar með einn besti árgangur allra tíma í Bordeaux (Móðir allra árganga?)!
2010 er ekki hægri eða vinstri árgangur eins og oft er sagt um Bordeaux, heldur er hann Cabernet-árgangur.  Cabernet Sauvignon vinstra megin og Cabernet Franc hægra megin.  Fyrir þá sem ekki átta sig á hvað er hægri og hvað er vinstri í Bordeaux þá er átt við sinn hvorn árbakka Gironne-árinnar sem rennur í gegnum Bordeaux.  Vinstra megin eru m.a. héruðin Médoc, Haut-Médoc, St-Estephe, Pauillac, St-Julien, Margaux, Moulis, Pessac-Leognan og Graves.  Hægra megin eru aftur héruðin St-Emilion, Pomerol, Lalande-de-Pomerol og Fronsac.
Eru þetta gleðifréttir fyrir okkur venjulega vínunnendur? Varla, því þetta leiðir bara af sér hærra verð og því enn ólíklegra að við höfum efni á þriðja eða fjórða yrki, hvað þá fyrsta eða öðru.  Ekki svo sem að það hefði verið eitthvað eftir handa okkur ef við hefðum haft efni á einni flösku eða svo, því kínverjarnir virðast nú ætla að kaupa upp öll bestu vínin.
Hins vegar eru verulegar líkur á að „venjulegir“ vínbændur í Bordeaux hafi einnig gert það gott í fyrra og því sennilega óhætt að láta slag standa ef maður rekst á Bordeaux-vín sem mann langar í.  Svo er einföld regla til að muna hvaða árgangar eru góðir – 2000 og 2010 og svo allar oddatölur þar á milli!

Vinir á Facebook