Kominn tími á grillið?

Ég skrapp út að borða áðan með vinnufélaga mínum (ég er staddur í Falun þessa viku og því miður er enginn veitingastaður á hótelinu, bara hægt að fá hefðbundinn hótelmorgunverð og ég „neyðist“ því oft til að fara út að borða þegar ég er staddur hérna). Við fórum á stað sem heitir Banken – rótgróinn veitingastaður í hjarta Falun, og er til húsa þar sem áður var banki. Þar fékk ég mér blöndu af ýmiss konar grilluðu kjöti og ákvað endanlega að nú verður grillið tekið fram um helgina – pússa af því drullu og ryð og grilla góða steik (það spáir líka vel og því tilvalið að fá sér einn kaldan bjór á meðan grillað er!). Ég er þó á bakvakt og fer því varlega í vínrannsóknir um helgina – í mesta lagi eitt glas með matnum. Ég hugsa þó að ég reyni að verða mér úti um fleiri Seghesio Zinfandel 2007 – feiknagott vín fyrir tiltölulega lítinn pening.

Vinir á Facebook