Marqués de Riscal Rueda 2007 og Falu-Sushi

Þessa vikuna er ég staddur í Falun (höfuðstaður Dalanna í Svíþjóð), bý á hóteli sem ekki er með eigin veitingastað og því þarf ég að finna mér eitthvað að borða á hverju kvöldi. Þegar ég var að kaupa mér samloku í hádeginu var verið að kynna sushi á sjúkrahúsinu þannig að ég ákvað að skella mér á sushi í kvöldmatinn. Ég komst að því að sushistaðurinn er ekki nema tæpa 100 metra frá hótelinu mínu og kom því við þar á leiðinni upp á hótel og keypti nokkra sushibita. Ég vil drekka hvítvín með sushi og lagði því leið mína í systemið í Falun. Þar endaði ég á því að kaupa mér litla hvítvínsflösku, Marqués de Riscal Rueda 2007. Þetta vín er búið til úr Verdejo-þrúgunni, og mér vitanlega hef ég aldrei smakkað þetta vín áður. Það er nokkuð ljóst, með dálítið sætan blóma og jurtailm sem skilar sér í munni þar sem eftirbragðið verður svo örlítið beiskt. Ágætis sumarvín og gengur alveg með sushi.

Vinir á Facebook