Sælla að gefa en þiggja

Ég hef löngum verið aðdáandi ofurvínanna frá Toscana en því miður ekki prófað nógu mörg (verða þau nokkurn tíma nógu mörg?).  Helst er það að Tignanello hafi náð að komast í glasið mitt.  Í ferð minni í Kringluna um daginn rakst ég á Cepparello frá Isole e Olena, ofurtoskani úr hreinu Sangiovese.  Þetta er vín sem mig hefur lengi langað til að prófa, allt síðan ég las dómana um hinn stórkostlega 97-árgang.  Cepparello hefur því miður ekki verið fáanlegur í minni vínbúð og gengið erfiðlega að fá hann í Svíþjóð, og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar örskamma stund og ákvað því að kaupa eina flösku.  Spenningurinn varð þó skammlífur því ég ákvað um leið að ég myndi gefa honum Palla frænda mínum flöskuna!  Ástæðan er sú að við Guðrún göngum upp að altarinu um aðra helgi og Palli ætlar svo að vera veislustjóri í brúðkaupsveislunni.  Hann kveðst vera að þreyta frumraun sína í þessu hlutverki og ég ákvað því að færa honum flöskuna sem innblástur.
Bið mín eftir Cepparello verður því að halda áfram enn um sinn.

Vinir á Facebook