Giftur!

Við Guðrún gengum í það heilaga nú um helgina og ritstjórinn er því hættur að lifa í synd!  Við héldum veislu þar sem við buðum nánustu vinum og ættingjum og Páll Ólafsson frændi minn fór á kostum sem veislustjóri.  Hann þóttist vera eitthvað tvístígandi þegar við báðum hann um að taka þetta að sér, sagðist aldrei hafa gert svona lagað áður en það var sko ekki að sjá í veislunni okkar.  Öðru nær, það var eins og við hefðum fengið þaulvanan atvinnumann, slíkt var tempóið og fjörið – aldrei dauður punktur og frábær stemming!  Páll fékk innblástur frá mér í formi Isole e Olena Cepparello 2003 og greinilegt að það hefur haft góð áhrif því hann færði mér eina slíka flösku í veislunni og bráðlega fæ ég að njóta vínsins sem mig hefur langað í í mörg ár.
Annars er ég líka farinn að huga að heimferðinni og farinn að sanka að mér ýmsu sem erfitt er að nálgast í Uppsölum.  Ég fékk nokkrar gæsabringur frá Óla hennar Selmu og hlakka mikið til að bragða á þeim.  Þá er meiningin að taka svolítinn humar með til Uppsala og ég er líka með nokkrar góðar flöskur í sigtinu þegar farið verður í gegnum fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli, og eins kom ég auga á gamlan kunningja í einni vínbúðinni um daginn og getur vel farið svo að þau kynni verði endurnýjuð.

Vinir á Facebook