Kendall Jackson Vintner’s Reserve Chardonnay 2020

Hluti af WSET-3 náminu sem ég skellti mér í sl. vetur var að smakka um 60 mismunandi vín og vínstíla. Maður fer auðvitað ekki í gegnum svona nám án þess að prófa Chardonnay. Þar smökkuðum við auðvitað Chablis og svo áttum við að smakka dæmigert Chardonnay frá Kaliforníu. Þegar kom að því að velja Kaliforníuvínið lá auðvitað beinast við að velja mest selda „premium“-Chardonnay undanfarinna áratuga.

Með „premium“ er hér átt við vín sem kosta meira en 15 dollara í Bandaríkjunum. Þar hefur Vintner’s Reserve Chardonnay frá Kendall-Jackson verið söluhæst undanfarna áratugi. Á hverju ári seljast nærri 1,2 milljónir flaskna (um 100.000 kassar – 12 stk/kassa) af þessu ágæta hvítvíni og það er alveg magnað að hægt sé að framleiða vín í þessum gæðaflokki í svona miklu magni.

Kendall-Jackson er eitt af stærstu vínhúsum Kaliforníu og það 13. stærsta í Bandaríkjunum. Ársframleiðslan er um 1,7 milljónir kassa (12 flöskur í kassa) og vínekrurnar ná yfir litla 4.000 hektara eða helmingur af Garðabæ (að Álftanesi meðtöldu). Vínin frá Kendall-Jackson eru allt frá ódýrum borðvínum yfir í hágæðavín. Vínhúsið var stofnað af Jess Jackson árið 1974 og fyrstu vínin litu dagsins ljós árið 1982. Vínin slógu strax í gegn og hafa notið velgengni æ síðan.

Eikin hefur ávallt gegnt stóru hlutverki í víngerð Kendall-Jackson, og til marks um það þá á Kendall-Jackson hlut í timburverksmiðjum í Frakklandi og í Missouri í Bandaríkjunum.

Vín dagsins

Þrúgurnar sem fara í vín dagsins koma af vínekrum í Monterey, Santa Barbara, Mendocino og Sonoma. Fyrir vikið má ekki kenna vínið við neitt af þessum skilgreindu vínhéruðum, heldur flokkast það sem hvítvín frá Kaliforníu. Vínið er gerjað og þroskað í 7 mánuði í frönskum (5% nýjar tunnur) og amerískum (7% nýjar tunnur) og fékk að liggja sur lie til að fá í sig flóknari og smjörkenndari ilm með malolactic efnahvörfum.

Kendall Jackson Vintner’s Reserve Chardonnay 2020 er sítrónugult á lit, með nokkuð þéttan ilm af melónum, ananas, banönum, ferskjum, apríkósum, nektarínum, perum, smjöri, ristuðu brauði, kókos og möndlum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru, gott jafnvægi og góða fyllingu. Langt eftirbragð þar sem epli, smjör, vanilla, ananas, ferskjur og perur eru áberandi. 90 stig. Mjög góð kaup (3.798 kr). Fer vel með fiski, skelfiski, ljósu fuglakjöti, pasta með rjómasósum og grænmetisréttum.

Wine Enthusiast gefur víninu 91 stig, Wine Spectator gefur því 88 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (2.834 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Kendall Jackson Vintner’s Reserve Chardonnay 2020
Mjög góð kaup
Kendall Jackson Vintner's Reserve Chardonnay 2020 fer vel með fiski, skelfiski, ljósu fuglakjöti, pasta með rjómasósum og grænmetisréttum.
4
91 stig

Vinir á Facebook