Henri Maire Montfort Passemont Grande Reserve 2018

Nýlega sagði ég ykkur frá alveg ágætu Ripasso sem er gert sérstaklega fyrir norræna vínunnendur. Eins og segir í þeirri færslu hugsar sænska Systembolaget ekki bara um að veita vínframleiðendum og birgjum þeirra aðgang að hillum sænskra vínbúða. Þar er líka fylgst með því hvað neytendur vilja og þeir leggja sig fram um að bjóða sérstaklega upp á gott úrval vína sem neytendur vilja. Hluti af því er að bjóða út tiltekið magn af víni í tilteknum stíl og á tilteknu verðbili. Þannig geta framleiðendur boðið sína vöru fram, en vínkaupmenn geta líka samið beint við vínframleiðendur um að útbúa vín í tilteknum stíl. Uppfylli vínið kröfur um verð og gæði á það möguleika á að komast í hillur sænskra vínbúða (og líklega einnig norskra og finnskra vínbúða, því þar eru líka ríkisreknar áfengisverslanir).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá rótgrónu vínhúsi í Jura-héraði í Frakklandi. Vínhús Henri Maire var stofnað á 17. öld og á í dag vínekrur í Arbois og Chateau Chalon. Vín dagsins er sérstakt fyrir það að það er í raun útbúið fyrir norrænan vínmarkað. Vínið er gert með svipaðri aðferð og Ripasso-vín, s.k. appassimento-aðferð. Þrúgur (Chardonnay, Savagnin og Poulsar) sem hafa verið látnar þorna (breytast næstum því í rúsínur) og notaðar í s.k. Vin de Paille eru settar út í rauðvín (úr Syrah) sem er svo látið gerjast aftur. Þar sem að slík víngerð er ekki almennt viðurkennd í Frakklandi þá fer þetta vín í lægstu skör franskrar víngerðar og flokkast sem Vin de France. Ég held líka að þetta sé fyrsti árgangurinn af þessu víni.

Henri Maire Montfort Passemont Grande Reserve 2018

Henri Maire Montfort Passemont Grande Reserve 2018 er rúbínrautt á lit með byrjandi þroska og ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, súkkulaði, pipar, sólber og vanillu. Í munni eru miðlungstannín, miðlungssýra og þéttur ávöxtur. Kirsuber og sólber ráðandi í eftirbragðinu. 88 stig. Mjög góð kaup (2.398 kr). Fer vel með lambi, nauti og hörðum ostum, en má líka prófa með bragðmiklum grænmetisréttum. Fyrirtaks veisluvín. Ef þið kunnið að meta Ripasso kunnið þið eflaust líka að meta þetta vín.

Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (135 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Henri Maire Montfort Passemont Grande Reserve 2018
Mjög góð kaup
Henri Maire Montfort Passemont Grande Reserve 2018 fer vel með lambi, nauti og hörðum ostum og jafnvel bragðmiklum grænmetisréttum.
4
88 stig

Vinir á Facebook