Gerard Bertrand Cote des Roses Pinot Noir 2019

Áfram held ég að skrifa um Pinot Noir og nokkuð ljóst að ég þarf líka að fara að klára yfirlitsgreinina um Pinot Noir sem ég var hálfvegis að lofa um daginn. Að þessu sinnu förum við aftur til Frakklands en reyndar ekki til Bourgogne, heldur til Languedoc. Languedoc er þekkt fyrir góð vín en Pinot Noir er líklega ekki fyrsta þrúgan sem manni dettur í hug. Aðalþrúgurnar í Languedoc eru nefnilega Grenache, Syrah og Mourvedre, líkt og í Rónardalnum.

Einn þekktasti vínframleiðandinn í Languedoc er góðvinur okkar Gerard Bertrand. Hann er kannski ekki þekktastur fyrir Pinot Noir en auðvitað er sú þrúga til staðar á vínekrunum hans. Vínhús G.B er staðsett í Languedoc en vín dagsins flokkast reyndar sem Pays d’Oc. Pays d’Oc er IGP-skilgreining á vínum frá Languedoc-Roussillon sem ekki falla undir reglur um AOC-flokkun innan Languedoc (t.d. Minervois, Corbieres og Languedoc).

Pays d’Oc er eitt mikilvægasta IGP-svæði Frakklands og meirihluti franskra IGP-vína koma þaðan. Reyndar er það svo að sum af bestu vínum á þessu svæði flokkast sem IGP (samanber ofur-Toscanavín frá Ítalíu). Eins og áður segir eru Grenache, Syrah og Mourvedre mikilvægustu þrúgurnar í Languedoc, en á IGP-svæðinu er mest ræktað af Chardonnay, Pinot Noir og Merlot.

Vín dagsins

Vín dagsins eru úr Cote des Roses-línunni frá Gerard Bertrand. Hér er á ferðinni hreint Pinot Noir sem kemur af vínekrum í Narbonne. Að lokinni gerjun hefur vínið fengið að liggja í nokkra mánuði á eikartunnum til að þroskast betur.

Gerard Bertrand Cote des Roses Pinot Noir 2019 er kirsuberjarautt á lit og óvenjudökkt fyrir Pinot. Í nefinu finnur maður hindber, sólber, vanillu og pipar. Í munni eru mjúk tannín, frískleg sýra og þokkalegur ávöxtur. Hindber, jarðarber, leður og smá eik í góðu eftirbragðinu. 87 stig. Fer vel með fuglakjöti, svínakjöti, pasta og laxi eða bara eitt og sér. Góð kaup (2.799 kr).

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,5 stjörnur (206 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur 86 stig.

Gerard Bertrand Cote des Roses Pinot Noir 2019
Gerard Bertrand Cote des Roses Pinot Noir 2019 fer vel með fuglakjöti, svínakjöti, pasta og laxi eða bara eitt og sér.
4
87 stig

Vinir á Facebook