Tiki Estate Sauvignon Blanc 2019

Alþjóðlegi Sauvignon Blanc-dagurinn er á morgun, 1. Maí. Þetta verður í ellefta skiptið sem þessum degi er fagnað, en hann á uppruna sinn á Nýja-Sjálandi. Það voru auðvitað vínbændur í Marlborough-héraði sem komu þessu á fót til að hvetja fólk til að drekka meira Sauvignon Blanc. Nú er það svo að Sauvignon Blanc er ekki bara ræktað á Nýja-Sjálandi en það nýtur sín hins vegar alveg einstaklega vel í Marlborough-héraðinu.

Þekktustu Sauvignon Blanc-vínin koma líklega frá þorpunum Sancerre og Pouilly-Fumé í Loire-dalnum í Frakklandi, en í Frakklandi er auðvitað gengið út frá því að þú vitir að þarna er Sauvignon Blanc á ferð, því það kemur ekki til greina að nafn þrúgunnar komi fram á flöskumiðanum. Þetta eiga menn bara að vita – alveg eins og að allir eiga að vita að það er bara Chardonnay í Chablis og það er bara Pinot Noir í rauðum Búrgúndarvínum.

Í vínbúðunum koma upp 62 vörur þegar leitað er að Sauvignon Blanc, og af því er bara eitt kassavín. Á meðal hinna vínanna eru m.a. vín frá toppframleiðendum á borð við Cloudy Bay, Henri Bourgeois og Brancott, svo nokkrir séu nefndir (reyndar ekki toppvínin frá þeim, en vel frambærileg vín engu að síður).

En er einhver munur á vínunum frá Loire, Frakklandi og Marlborough, Nýja-Sjálandi? Frönsku vínin eru yfirleitt frísklegri, með grösuga tóna, steinefni og stundum smá ferskju. Ný-Sjálensku vínin eru oft bragðmeiri og þar má frekar greina suðræna ávaxtatóna í bragðinu.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur auðvitað frá Marlborough í Nýja-Sjálandi. Framleiðandinn Tiki er ungur að árum og það er áhugavert að lesa sögu þeirra Royce og Sue McKean sem stofnuðu Tiki. Þau gróðursettu vínvið á 320 hektara á landi þar sem áður hafði verið sauðfjárbúskapur. Fyrsti árgangurinn leit dagsins ljós árið 2009 og hlaut strax mjög góðar viðtökur. Ég smakkaði fyrst vín frá Tiki árið 2015 og varð strax mjög hrifinn af þeim, og ekki minnkar hrifningin við vín dagsins.

Tiki Estate Sauvignon Blanc 2019 er fölgult með grænni slikju, unglegt með miðlungs dýpt. Í nefinu er klassískur kattahlandsilmur (sólberjalauf), límónur og nýslegið gras, en einnig má greina ögn af blóðbergi og grænum baunum. Í munni er vínið frísklegt með miðlungsfyllingu og góða sýru. Sítrónugras og perur ráðandi í góðu eftirbragðinu. Fór einstaklega vel með grilluðum fiskspjótum sem ég fékk hjá Kristófer vini mínum í Gallerí Fisk. Mjög góð kaup (2.699 kr). 90 stig.

Notendur Vivino. com hafa að meðaltali gefið þessu víni 3.8 stjörnur og 2019-árgangurinn er þegar þetta er skrifað með 4.0 í einkunn (aðeins rúmlega 20 umsagnir).

Tiki Estate Sauvignon Blanc 2019
Frábært Sauvignon Blanc sem fór einstaklega vel með grilluðum fiskispjótum. Mjög góð kaup.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook