Umani Ronchi Terre di Chieti Pecorino Vellodoro 2017

Þrúgan Pecorino var lengi vel notuð til íblöndunar í önnur hvítvín þar sem hún gefur af sér blómlegan ilm, hefur nokkuð góða sýru og getur haft hátt áfengishlutfall.  Hún gefur hins vegar ekkert sérstaklega ríkulega uppskeru og því var henni á endanum oftast skipt út fyrir aðrar þrúgur sem gáfu betri uppskeru.  Þrúgan var nánast horfin af ítölskum vínekrum þegar víngerð Umani Ronchi ákvað að setja af stað verkefni til að varðveita þessa og fleiri ítalskar þrúgur.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr hreinu Pecorino, sem var látið liggja í stáltönkum í 4 mánuði að lokinni gerjun.  Vínið er gert til að vera drukkið ungt.  Athugið að ef vínið er mjög kalt þá er lyktin mjög dauf og sömuleiðis bragðið.  Þegar það hitnar aðeins magnast ljúfur ilmurinn og bragðið kemur í ljós.  Kjörhiti við neyslu er því um 12-14 gráður.

Umani Ronchi Terre di Chieti Pecorino Vellodoro 2017 er ljósstrágult að lit og unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður ferskjur, apríkósur, sítrus og sumarblóm.  Í munni er vínið þurrt, með snarpa sýru og góðan ávöxt. Sítrónukeimurinn er áberandi en einnig má greina perur og ferskjur í ágætu eftirbragðinu.  Hentar best með fiskréttum, ferskum ostum, ljósum pastaréttum og salati.  Ágæt kaup (2.390 kr). 87 stig.

Hvað segja hinir?

Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur víninu 4,5 stjörnur.

Wine Enthusiast gefur víninu 87 stig.

Notendur Vivino gefa víninu 3.6 í einkunn (um 500 notendur)

Vinir á Facebook