Montipagano 2016

Að undanförnu hef ég aðeins verið að prófa vínin frá Umani Ronchi, en sú ágæta víngerð hefur aðsetur í Abruzzo og Marche á Ítalíu.  Við Íslendingar þekkjum þau kannski ekki eins vel og Toscana eða Valpolicella, en það er alveg tímabært að kynnast þessu héraði betur, því þaðan kemur urmull af góðum og matarvænum vínum.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr lífrænt ræktuðum Montepulciano-þrúgum. Hluti vínsins er látinn liggja á eikartunnum í tiltölulega stuttan tíma áður en lokablöndun fer fram.  Vínið er gert til að vera drukkið ungt og hentar ekki til langtímageymslu.

Umani Ronchi Montepulciano d’Abruzzo Montipagano 2016 er kirsuberjarautt á lit og  unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður hindber, bláber, ferskar kryddjurtir og smá útihús.  Í munni eru létt tannín, ágæt sýra og sæmileg fylling. Hindber, plómur, ögn af eik og smá hrat í eftirbragðinu. Fer eflaust vel með íslenska lambinu þegar það fer á grillið í sumar. Ágæt kaup (1.990 kr). 87 stig.

Hvað segja hinir?

Notendur Vivino gefa 3.6 í einkunn (169 notendur)

Vinir á Facebook