Banfi Cum Laude 2014

Víngerð Castello Banfi telst ekki gömul á ítalskan mælikvarða – stofnuð 1978. Banfi á vínekrur í Toscanahéruðunum Bolgheri, Montalcino og Chianti Classico, en einnig í Piemonte.  Frá víngerðinni koma vín sem þykja klassísk fyrir þessi héruð, en einnig eru þar gerð prýðisgóð ofur-Toscanavín, þar á meðal vín dagsins.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Toscana og tilheyrir þeim flokki vína sem kallast ofur-Toscanavín, þar sem þau eru ekki byggð á Sangiovese-þrúgunni.  Vissulega kemur sú þrúga fyrir í víni dagsins, en þar er líka Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah, og er hlutföllunum skipt nokkuð jafnt (getur verið aðeins breytilegt milli ára).  Þrúgurnar eru látnar gerjast hver í sínu lagi og svo látnar liggja í 6 mánuði á eikartunnum áður en blöndun fer fram.  Að lokinni blöndun liggur vínið aðra 6 mánuði á tunnum og svo enn eina 6 mánuði eftir að það hefur verið sett á flöskur. Nafnið Cum Laude má íslenska sem „með láði“ eða annarri tilvísun í heiður.

Castello Banfi Toscana Cum Laude 2014 er kirsuberjarautt á lit, unglegt, með góða dýpt. Í nefinu finnur maður plómur, leður, pipar, lakkrís, rauð papriku og eik.
Stinn tannín, góð sýra, flottur ávöxtur. Kirsuber, eik og ögn af tóbaki í góðu eftirbragðinu sem endist vel.  Á eftir að opna sig betur og geymist vel næstu 5-8 árin eða svo. Fer vel með grilluðu kjöti og góðum ostum. Mjög góð kaup (3.031 kr). 90 stig.

Hvað segja hinir?

Wine Spectator gefur 89 stig.

Notendur Vivino gefa víninu 3.7 í einkunn (369 notendur)

Vinir á Facebook