Spennandi Negroamaro

Eins og þið eflaust vitið þá er Ítalía í laginu eins og stígvél, og á hæl stígvélsins er héraðið Salento, sem tilheyrir Apuliu.  Þar er ræktuð þrúga að nafni Negroamaro, en lítið fer fyrir henni utan Apuliu.  Best nýtur þrúgan sín í Salento, þar sem jarðvegurinn er grýttur og kalkríkur, sumrin þurr og heit og stundum langir þurrkar.  Vínviðurinn gefur vel af sér og uppskeran yfirleitt góð þrátt fyrir fyrrnefndar aðstæður.  Til að vín megi kallast Negroamaro Salento þurfa þau að innihalda a.m.k. 85% Negroamaro.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi er nefnist Angelo Rocca & Figli, sem á sér rúmlega 100 ára langa sögu.  Þessi tiltekna lína kom fyrst á markað árið 2014 og var þá kynnt sem fjölskylduvín með vísan í nafn fjölskyldunnar – Torri mun vera samnefnari Rocca og merkir turn, d’Oro þýðir úr gulli – gullturninn.  Vínið hefur fengið að liggja nokkra mánuði á eikartunnum áður en það fer á flöskur, og ætti að endast næstu 3-4 árin.

Torri d'Oro Negroamaro Salento 2016Torri d’Oro Negroamaro Salento 2016 er kirsuberjarautt á lit, dökkt en unglegt.  Í nefinu eru pipar, hindber, plómur, leður og anís.  Miðlungs tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Súkkulaði, leður, hindber, pipar og anís í góðu eftirbragðinu.  Fyrirtaks matarvín (kjöt og ostar).  Mjög góð kaup (2.299 kr). 90 stig.

Vinir á Facebook