Frábær kaup!

Jæja, nú er kominn tími til að líta aðeins út fyrir Rioja, en ég ætla þó ekki að fara neitt sérstaklega langt heldur færum við okkur yfir til Portúgal, til vínræktarhéraðs sem heitir Dão og er staðsett í hjarta Portúgal.  Það er eitt elsta skilgreinda vínræktarsvæðið í Portúgal.  Upp úr 1940 fyrirskipaði þáverandi forsætisráðherra Portúgals að vínbændur skyldu tilheyra samvinnufélögum, í þeim tilgangi að reyna að bæta gæði vínframleiðslunnar.  Árangurinn varð hins vegar þveröfugur – gæðin minnkuðu því samkeppnin hvarf.  Það var svo ekki fyrr en Portúgal gekk í Evrópusambandið árið 1979 að þessari kröfu var aflétt og vínframleiðslan fór að taka við sér.  Stærstur hluti vínframleiðslunnar í Dão eru rauðvín (80%), en DOC-reglur héraðsins kveða á um að minnst 20% framleiðslunnar skuli vera úr þrúgunni Touriga Nacional, en aðrar helstu þrúgur héraðsins eru Tinta Roriz (Tempranillo), Jaen (heitir Mencia á Spáni), Alfrocheiro Preto og Encruzado (hvít þrúga).

Vín dagsins

Vín dagsins er frá framleiðanda sem nefnist Lua Cheia, en íslenskir vínáhugamenn ættu að vera farnir að kannast við hin ágætu Andreza-vín frá sama framleiðanda.  Vín dagsins er gert úr þrúgunum Touriga Nacional og Alfrocheiro.

I Insurgente Dão 2015 er kirsuberjarautt á lit og ungt að sjá.  Í nefinu finnur maður bláber, fjólur, lavender og krydd.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og góð fylling. Bláber, kirsuber, leður og dökkt súkkulaði í þéttu og góðu eftirbragðinu. Frábær kaup (2.309 kr). Fer vel með kjöti, pasta, ostum og spænskri skinku. 90 stig. Ein bestu kaupin í Vínbúðunum í dag!

Vinir á Facebook