Föstudagsvínið

Föstudagsvínið er auðvitað frá Rioja (ég vona að þetta Rioja-blæti mitt sé ekki farið að fara í taugarnar á lesendum) og úr hinum stórgóða 2011-árgangi.  Nýlega fjallaði ég um Gran Reserva 2010 frá Bodegas LAN – mjög góð kaup – og hér er komið annað vín frá sama framleiðanda – Reserva 2011, sem er ekki mikið síðri kaup.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunum Tempranillo (92%) og Graciano (8%). Það hefur fengið að liggja í 16 mánuði á tunnum og 2 ár í flöskum áður en það kom á markað.

Bodegas LAN Rioja Reserva 2011 er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá.  Í nefinu eru kirsuber, leður, plómur, eik, vanilla, anís og hvítur pipar. Í munni eru góð tannín, snörp sýra og fínn ávöxtur. Tóbak, leður, plómur í ágætu eftirbragðinu. Góð kaup (2.549 kr).  Hentar vel með nauti, lambi, villibráð og ostum. 88 stig

Vinir á Facebook