Hví ekki að prófa eitthvað nýtt?

Þegar vín eru annars vegar finnst mér fátt skemmtilegra en að prófa nýjar þrúgur, því maður veit ekki alveg hverju maður á að búast við.  Ég hef líka lengi verið hrifinn af sætum vínum – bæði hinum frönsku Sauternes og hinum ungversku Tokaj.  Hin síðarnefndu eru oft gerð (að hluta eða alveg) úr þrúgunni Furmint (það er líka leyfilegt að nota þrúgurnar Hárslevelü, Kabar, Kövérszölö, Zéta, og Sárgamuskotály!).  Furmint gefur líka af sér ágæt þurr hvítvín og ef þið hafið ekki prófað þau er alveg óhætt að mæla með þeim.

Vín dagsins

Vín dagsins er hvítvín gert úr þrúgunni Furmint og kemur frá framleiðanda að nafni Disznókó.  Víngerð í Ungverjalandi á sér langa og merka sögu og fyrir tíma kommúnismans þóttu sæt, ungversk vín vera ómissandi á veisluborðum aðalsins í Evrópu.  Disznókó hefur flokkast sem fyrsta yrki frá árinu 1732 en á sér eflaust lengri sögu.  Talið er að sætvín hafi verið framleidd í Ungverjalandi frá því snemma á 16. öld, en líkt og annars staðar í Evrópu fóru ungverskar vínekrur illa út úr lúsarótarfaraldrinum undir lok 19. aldar og þurfti því að gróður setja nýja vínviði á rótarstofnum sem þoldi lúsina.  Ungverskir vínbændur notuðu þá tækifærið og skiptu um vínviðartegundir, þannig að í stað þess vínviðar sem lengi hafði þrifist svo vel í landinu komu tegundir sem einkenndu franska víngerð (Cabernet Sauvignon, Merlot og Cabernet Franc) en einnig Furmint, Muscat og Hárslevelü.

Disznoko Dry Furmint 2015Disznoko Dry Furmint Tokaj 2015 er fölgult á lit með smá grænni slikju.  Í nefinu eru greipaldin og perur ráðandi.  Í munni er vínið þurrt með góða sýru og fínan ávöxt. Sítrónur, melónur og ferskjur ráðandi í léttu bragðinu.  Frísklegt vín sem nýtur sín vel með fiski, grænmetisréttum og austurlenskum mat, t.d. sushi, en einnig eitt og sér sem fordrykkur til að dreypa á yfir grillinu.  Góð kaup (2.398 kr).  88 stig.

Vinir á Facebook