Marques de Cáceres Reserva

Rioja klikkar ekki!

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá glöggum lesendum Vínsíðunnar að Rioja-vín hafa verið nokkuð áberandi hér á síðunni undanfarið ár eða svo.  Það ætti svo sem ekki að koma hinum sömu á óvart, því vínin sem hafa verið að koma frá Rioja undanfarin 4-5 ár – 2009-2011 árgangarnir voru jú frábærir.  Eðlilega færist smekkurinn hjá manni yfir til svo góðra vína að þetta verður nánast einsleitt þegar kemur að umfjöllun – svipað og fyrir nokkrum árum þegar 2006-2008 frá Toscana voru hreint framúrskarandi góðir.  Þó að síðustu 2-3 árgangar frá Rioja hafi ekki verið jafn frábærir og árgangarnir á undan þá eru þeir alls ekkert slor.  Það líka huggun að það er sennilega orðið tímabært að beina sjónum aftur að Frakklandi, en þar hafa nær allir árgangar frá 2014 verið mjög góðir í flestum ef ekki öllum héruðum Frakklands, þó svo að óstöðugt veðurfar hafi leikið sumar vínekrur grátt.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur auðvitað frá Rioja, frá tiltölulega ungri víngerð sem nefnis Marques de Cáceres, stofnuð 1973.  Vínin frá þeim hafa verið að fá góðar umsagnir hjá flestum vínskríbentum og vín dagsins endaði í 19. sæti á topp 100-lista Wine Spectator yfir vín árins 2017 (efst þeirra vína sem fást í hérlendum vínbúðum).  Það er að mestu gert úr Tempranillo (85%) en inniheldur einnig smá Garnacha (10%) og Graciano (5%).

Marques de Cáceres reserva 2012Marques de Caceres Rioja Reserva 2012 er kirsuberjarautt á lit með byrjandi þroska.  Í nefinu finnur maður tóbak, plómur, leður, eik, anís og vanillu.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Kirsuber, vanilla, leður og pipar ásamt vott af appelsínuberki í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér nokkuð vel.  Mjög gott matarvín (rautt kjöt, nema hvað!).  Frábær kaup (2.889 kr). 92 stig.

Vinir á Facebook